Bólusetningar - Álitaefni - Einstaklingsfrelsi

Nú tilkynnir einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins að hann ætli að leggja til að þvingaðar bólusetningar verði samþykktar í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Með þessu er komin upp ný átakalína í álitaefnum.

Ég vil þó byrja á að nefna þá undrun mína að þessi ákveðni borgarfulltrúi skuli vera fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vegna þess að sá flokkur var beinlínis stofnaður sem vörn fyrir einstaklingsfrelsi.

Þetta frelsi er aldrei til sölu - aldrei.

Hver einasti maður er fæddur frjáls - eða svo er sagt þegar menn vilja vera djúpir í tjáningu sinni.

Ríkið (eða borgin) tekur ekki frelsið af fólkinu nema þegar þetta sama ríki fer í herleiðangur, þá höfðar ríkið til ættjarðarástar en jafnframt setur það upp herskyldu.

Allir skuli láta skrá sig í herinn (líka friðarsinnar) og með því undirgangist þeir heraga og hlýða því sem þeim er sagt að gera (líka að drepa fólk).

Mig langar til að játa fyrir ykkur að ég hef um langan aldur (fæddur 1936) blessað þá forsjón sem leyfði mér að fæðast sem Íslendingur, vegna þess að ég hef alla tíð (frá því ég komst til vits og ára) verið einfari, eða minnihluta maður og gengið gegn almannastraumi.

Ekki sem skapofsamaður heldur sem friðarsinni sem vill heill einstaklingsins og heill samfélagsins.

Hluti af því að vera frjáls er að hafa frelsi til að gera villur, eða hafa rangt fyrir sér.

Þegar ég um 19 ára aldur ákvað að borða ekki dýr, þá var ég sannarlega í minnihluta!

Þrátt fyrir það hef ég alla tíð reynt að eiga friðsamlegt samneyti við alla menn og talið það til skyldu minnar að reynast nýtur þjóðfélagsþegn.

Öll nauðung er ígildi þessarar herskyldu sem ég var að lýsa hér fyrir framan.

Eins og við vitum allt of vel þá viðgengst hræðileg ómennska í styrjöldum og þær einar og sér eru auðvitað stærsta ómennskan. En auðvitað er þetta lýsing á tíðaranda og að menning heimsins er ekki komin lengra á leið.

Gandhi er sá maður sem ég ber ómælda virðingu fyrir og hann var svo sannarlega einstaklingshyggjumaður þó samúð hans væri öll með hinum lægst settu í þjóðfélaginu, þannig að ef einstaklingshyggjumaðurinn er með stórt hjarta þá er hann mikilsverður þegn þjóðfélagsins, eiginlega afburðamaður.

En sé hann ekki með stórt hjarta þá er voðinn vís.

Vondir menn ættu aldrei að taka að sér stjórnun borga eða ríkis, aðeins þeir sem vilja láta gott af sér leiða eru þess verðir. Þeir sem virða alla menn og virða frelsi þeirra til að kjósa sér eigin leið til heilsu.

Gandhi - Freedom 

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 29. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband