5.11.2010 | 18:01
Lögfræði er hún ígildi sannleikans ?
Í sakleysi mínu hef ég ætið litið á lögfræði sem verkfæri eða aðferð til að ná fram sanngirni í samskiptum manna. Þannig að sá sem er órétti beittur geti leitað fulltingis lögfræðinnar til að ná sínu markmiði.
Með þetta í huga verður maður stundum felmtri sleginn, þegar kveðnir eru upp dómar, þar sem niðurstaðan virðist hrópa á mann úr öllum áttum og segja þessa niðurstöðu úr takti við allt sem rétt er.
Einnig hefur maður margsinnis séð álitamál vera með tveim gjörólíkum niðurstöðum milli dómstiga.
Hvernig má það vera að sannleikurinn er svona falinn að hann finnist ekki hvað sem leitað er.
Lögfræðingar hafa svarið réttlætisgyðjunni hollustu sína og maður verður að gera ráð fyrir að það sé alltaf efst í huga þeirra.
Til að halda öllu til haga þá er það skylda lögmanna að verja sinn skjólstæðing og draga sérstaklega fram það sem honum er talið til tekna í umræddu máli.
En er nokkuð hægt að segja með vissu að hærra dómstigið sé með réttari dóm og hið lægra hafi ekkert til síns máls, þegar dómum er snúið á hvolf ?
Þetta er mikið umhugsunarefni - ef maður vill hugsa um það á annað borð. Þolendur vilja um fram allt fá kveðinn upp dóm sem losar þó við kvalræði sitt.
Náist það ekki fram með lægra dómstiginu verður að setja alla sitt traust á hið hærra. Það er þó ekkert öruggt með útkomuna. Samt er mikið í húfi. Jafnvel líf og dauði, svo stærra getur vandamálið ekki orðið.
Stundum sér maður lögfræðingana takast á fyrir dómi og hefur á tilfinningunni að þetta sé nánast eins og að horfa á skylmingar.
Ef lögfræðin er aðeins leikur eða skylmingar, með orð að vopni, þá er ekki þar með sagt að sá sem er færari í skylmingum sé með réttari málstað að verja, séð frá sjónarmiði réttlætisgyðjunnar.
Enda er það almennt þannig, að menn leita til því frægari og dýrari lögfræðinga eftir því sem þeir hafa lakari málstað að verja.
Það er þekkt fyrirbæri, að þeir sem hafa mikið fé úr að moða, hafi það hugfast framar öðru,að þeir geti keypt sig frá slæmum eða óþægilegum dómi, með útsjónarsömum lögfræðingi.
Niðurstaða þessa pístils verður því sá, því miður, að ekki sé öruggt að saklaus maður fái sinn sýknudóm.
Réttlætisgyðjan á tveim dómstigum - hvor þeirra fellir réttlátan dóm ?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.