Ég sakna hugsjóna Sparisjóðanna.

Þegar ég flutti til Hafnarfjarðar árið 1960 var þar fyrir Sparisjóðurinn.

Þar reyndist vera innan veggja fönguleg mær og ég fékk það hlutverk að eiga með henni samleið í lífsins sjó, sem nú spannar tæp 50 ár.

Vegna þessa, kynntist ég Sparisjóði Hafnarfjarðar betur en ella væri.

Á þessum tíma var Sparisjóðurinn akkeri Hafnfirðinga. Margir leituðu þangað eftir úrlausn sinna mála.

Eins og gengur þá eru óskirnar margar og ólíkar, en þó þannig að flestir gengu ánægðir frá Sparisjóðsstjóra, sem á minni tíð hafa verið þrír, Matthías Mathiesen, Guðmundur Guðmundsson, og Þór Gunnarsson.

Flestir viðskiptamenn voru að kaupa íbúð og einhverjir lausamuni.

Þar var gjaldkeri Jón Gestur Vigfússon. Hann var samvizkusemin holdi klædd. Honum var trúað fyrir að ganga tryggilega frá öllu í lok vinnu. Mér var sagt að það hafi oft komið fyrir að hann færi aukaferð um kvöld eða nótt til að fullvissa sig um að dyrnar væru örugglega læstar!

Þetta var á þeim tímum þegar öryggisgæzla var ekki tiltæk, enginn upptökuvél og enginn sjálfvirkur búnaður til að gæta öryggis.

En það öryggi sem var til staðar í þessum Sparisjóði, var samvizkusemi starfsmannanna.

Ég þakka fyrir að sá tími var ekki komin, að starfsmenn væru skikkaðir til, af stjórnendum, að reyna að blekkja saklaust fólkið sem kom í svona stofnanir með allt sitt trúnaðartraust og bað um góð ráð.

Enginn sá fyrir hverskonar fólk myndi koma í heiminn og hasla sér völl í fjármálabyggingum og gjörbreyta öllum siðferðisviðmiðum.

Já, ég sakna þeirra hugsjóna sem Sparisjóðirnir voru byggðir á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband