Prestar hafna vítiskenningunni

Ég tek eftir því að nokkrir bloggverjar halda á lofti, að vítiskenningin sé viðurkennd af prestum landsins. Það virðast menn gera, til að hafa fóður og ástæðu, til að gera prestum og trúarboðun þeirra, allt til miska.

Þessu vil ég mótmæla og taka upp vörn fyrir prestana. Ég gef mér það að þeir séu, allir sem einn, fráhverfir þessari einfeldningslegu og barnalegu kenningu.

Kenningu um að sumir þurfi að þola vítiskvalir í lengri eða skemmri tíma, aðallega þó til eilífðar! En aðrir, yfirleitt alltaf þeir sjálfir, ættu fyrir höndum himnaríkisvist! Þetta er í senn grátlegt og hlægilegt í senn, að til skuli vera svo sjálfumglatt fólk, einfalt og eigingjarnt.

Að nokkrum mönnum komi til hugar að þeir séu svo yfir aðra hafnir, að þeir fari til himna, en aðrir fari til vítis til að kveljast um eilífð.

Kristur gekk sjálfviljugur í ólýsanlega þrautagöngu. Lætur fólk sér til hugar koma að hann myndi óska skjólstæðingum sínum, að ganga í gegnum hið sama, og það til eilífðar - þvílík blinda.

Það þarf ekki að útlista fyrir nútíma mönnum að þessi forheimskandi kenning á ekkert erindi inn í nútimann.

Kristur sjálfur sýndi meðaumkun með öllu lífi og ekki getur þetta verið frá honum komið. Hins vegar, þegar mis vel gerðir menn, fóru að boða trú á hann fyrr á öldum, með eldibrandi og ólýsanlegri grimmd, þá var stutt í vítiskenninguna.

Ég bið kirkjurækið fólk sem og aðra áhugamenn um trúnna, að halda ró sinni. Það er eingöngu kærleikurinn sem er aðgöngumiði að betra lífi.

Fólk sem ræktar slík viðhorf, sendir sinn kærleika til allra manna og vill öllum allt hið besta. Það biður fyrir fólki og ekki síst þeim sem eru vansælir og ganga í blindni og vegvilltir.

Slíkt gott fólk vill engum það hlutskipti að kveljast, hvorki í þessu lífi né hinu næsta.

himnariki_-.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjáið hvað himnaríki er líkt íslensku landslagi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Sæll og blessaður Sigurður.

Þakka þér fyrir að bera blak af prestum. Það er rétt að þegar vantrúarliðar eru annars vegar njóta viðhorf presta og trúaðs fólks almennt lítils sannmælis.

En sem prestur Þjóðkirkjunnar má ég til með að segja þér að sú skoðun stenst ekki að prestar hafni helvíti allir sem einn. Sú er ekki raunin. Að því sögðu má einnig minna á að helvíti er ekki síðari tíma viðbót við kristna trú (þó sú kenning hafi verið misnotuð á síðari tímum). Helvíti var mjög svo raunverulegt í huga Jesú Krists. Enginn hafði heldur jafnmikið að segja um helvíti og sjálfur Jesús Kristur, eins og svo víða má sjá í guðspjöllunum. Jesús var mjög ómyrkur í máli er hann varaði fólk við veruleika helvítis. Framhjá því verður ekki horft.

Hitt er alveg rétt hjá þér að Guð óskar engum þess hlutskiptis. Enginn kristinn maður heldur öðru fram. Guð þráir ekkert meira en að allir þiggi það líf sem hann býður og kallar alla til, og það svo eindregið að hann leggur sjálfan sig í sölurnar til að svo megi verða: Því svo elskaði Guð heiminn að hann sendi einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf (Jóh 3.16). En þegar allt kemur til alls virðir Guð val og vilja fólks. 

Samkvæmt kristinni trú fæst hjálpræðið, lífið eilífa, fyrir trú og traust á Jesú Krist. En ávöxtur sannrar trúar er vitanlega kærleikur í hugsunum, orðum og verkum. Kærleikur getur staðið án trúar, en trú án kærleika er ónýt.

Bestu kveðjur sendi ég þér að norðan. Védís konan mín biður ekki síst að heilsa þér og Siggu konu þinni. Og þó skömm sé af því að hafa ekki gert það fyrr þakka ég þér fyrir kirkjumyndirnar fallegu sem þú sendir mér um árið og mun ég endurtaka þakkirnar persónulega við fyrsta tækifæri.

Virðingarfyllst.

Gunnar Jóhannesson, 29.1.2011 kl. 15:16

2 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Sæll og blessaður Gunnar,

Þakka þér kærlega fyrir kveðjur að norðan og við hjónin sendum ykkur allra bestu kveðjur héðan að sunnan.

Nú hlaut það að koma, að þessi vítiskenning yrði nefnd sem möguleiki, af hálfu einhverra presta og mig langar til að tæpa á því málefni first gefið er tilefni til.

Fyrst langar mig þó að segja sanna sögu um það sem fyrir mig kom fyrir svona um það bil 45 árum.

Þá var ég hárskeri í Hafnarfirði og var í óða önn að klippa einn viðskiptavin. Við vorum í hrókasamræðum um málefni dagsins eða gærdagsins. Alla vega gerist það óvænt að af vörum mínum hrjóta blótsyrði í hita samræðunnar.

Mér varð svo mikið um að hafa nefnt þetta kennileyti hins illa að ég bað viðskiptavin minn mikillar afsökunar, þó orðunum væri ekki beint gegn honum.

Mér leið eins og ég hefði brennt tunguna, svo mikið var áfallið.

Síðan þetta gerðist hef ég aldrei nefnt þetta, eða skyld orð á nafn, þó ég sé oft á tíðum í hópi manna sem finnst ekkert athugavert við að leggja áherslu á sín orð með blótsyrðum.

Þetta var nú útúrdúr auðvitað, en tengist aðeins því sem er hér til umræðu.

Til að mín trúarskoðun sé öllum ljós þá vil ég gjarnan benda á blogg mitt sem skrifað er 11.11.2010 og heitir: Hvað táknar að vera sannkristinn.

Ég er enginn sérfræðingur í Biblíunni, en hef myndað með mér þá skoðun að lærimeistari okkar kristinna manna, Jesús Kristur, sé sendiboði æðri gilda og þar sé fyrirgefningin þeirra æðst sem hann kunngjörði mannkyni.

Kristur var sjálfur ímynd og kyndilberi kærleikans í sinni æðstu mynd.

Þetta nægir mér til að fullyrða að Kristur sé sá sem ber synd heimsins, í þeirri merkingu að hann þjáist vegna illra verka mannanna.

Þrátt fyrir það þá er öllum fyrirgefið ótakmarkað og fá sín tækifæri til að lifa í ljósinu.

Vítisvistin eða þjáningin sem er hugarástand þess sem þjáist, er því enginn eilífðarvist, heldur skapar hver og einn sér sína myrku veröld, ef viðkomandi heldur sig við myrkraverk.

Það merkir ekki að viðkomandi sé án verndandi geisla kærleikans, þó svo að hinn sami meðtaki ekki náðarbrauðið við fyrstu snertingu. Sá tími mun þó óhjákvæmilega koma að hver syndari sjái að sér.

Hver maður gengur trúnni á hönd á eigin forsendum, og lætur sér nægja að vera sammála söfnuðinum um meginatriðin, sem eru tilvera Skaparans og eigin ódauðleiki.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 31.1.2011 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband