17.6.2011 | 10:45
Rosabaugur - eftir Björn Bjarnason
Það var töluvert verk að lesa þessa miklu bók og það er rík ástæða til að þakka Birni fyrir frábært framtak.
Þarna kemur enn og aftur fram hinn mikli dugnaður Björns og vandvirkni, því textinn rennur vel í gegn þó hann sé víða að komin, enda lifum við á upplýsingaöld og auðveldara að finna áður ritaðan texta.
Þó svo að maður hafi lesið flest af því sem birtist á sínum tíma, þá jafnast það ekki á við að hafa málið í samþjöppuðu formi á einum stað, en þannig kemur einnig nýr vinkill á það.
Þess utan er algjör nauðsyn að þetta furðulega mál sé á einum stað til rannsóknar fyrir næstu kynslóðir, svo þær megi draga af því sína lærdóma.
Það er sagt að sagan endurtaki sig stöðugt, og svona mál er þess eðlis að það má ekki endurtaka sig.
Maður hugsar til þess að flestir þeirra sem mótuðu almenningsálitið voru á launum hjá þessum aðilum.
Einnig hafði maður á tilfinningunni að hægt væri að kaupa heilu þjóðfélögin til fylgis og að hinir ofurríku gætu keypt meira að segja dómstólana með.
Þetta er reyndar heimur sem erfitt er að fóta sig í, hann er svo veruleikafyrrtur, en þó svo nærri með vald sitt og áhrif.
Á þeim árum sem þetta furðulega leikrit var í sýningu, þá fann maður innra með sér að það væri allt á rangri leið, þó svo að peningar streymdu um næstum alla afkima. En hvað gat maður gert annað en vera áhorfandi þar til sápukúlan sprakk.
Lærdómurinn sem ég vona að flestir tileinki sér, er sá að nú skulum við skapa þjóðfélagið í mennskara formi. Forðast öfgar en vernda þess í stað hófsemi og góðar dyggðir.
Eitt er þó víst að frelsi til athafna er einn af hornsteinum þjóðfélagsins og má aldrei frá okkur taka. Öllum ber þó að hlýða ákveðnum reglum og gildum svo þjóðfélagið verði ekki óskapnaður.
Rosabaugur Björns Bjarnasonar er tímamótarit
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.