13.10.2011 | 14:57
Biskupinn - og að vita betur eftirá
Sem betur fer er okkur flestum það gefið að vita betur eftir á, hvernig taka hefði átt á málum.
Í gær sagði vinur minn við mig: "Ólafur biskup gifti mig og sá um öll prestverk fyrir okkar fjölskyldu. Hann var mjög vel látinn og ekki nokkrum manni kom til hugar, að ekki væri allt í fullum sóma sem að honum snéri."
Þarna var maður sem vissi sínu viti eins og flestum er gefið. Ekki geta menn ætlað öðru fólki sem uppi var á þessum tíma, að hafa aðra skoðun á þessum tiltekna biskupi, heldur en minn sögumaður.
Í sömu stöðu hafa prestar landsins verið. Þeir sáu þarna kraftmikinn mann, sem var áhugasamur um sitt starf sem prestur. Auðvitað voru þeir alveg grandalausir fyrir því að slíkur yfirburðamaður væri ekki allur þar sem hann var séður.
Prestarnir kusu þennan mann sem biskup og auðvitað gerðu þeir það í fullri einlægni og góðri trú um að hann væri réttur maður á réttum stað.
Þegar svo áratugum seinna komu upp sögusagnir sem bentu til annars, þá studdu menn auðvitað sinn biskup frekar heldur en hina sem voru að brjóta þessa ímynd í mola. Ekki er hægt að áfellast þá fyrir það. Þess þarf einnig að gæta að ekki voru augljósar sektar tilvísanir til að styðjast við.
Svo þarf einnig að taka tillit til þess, að það er nú fyrst á okkar dögum, sem alls kyns kynferðisafglöp og vítaverð hegðun, er að koma upp á yfirborðið, og fá þá athygli og vigt sem aldrei áður hafði viðgengist.
Í þessu ljósi þarf að íhuga málið.
Þegar svo ofan á hinar óljósu ásakanir á biskupinn sem nokkrar konur komu með, þá kom þetta yfirburða viðtal við frú Ebbu dóttur biskupsins sjálfs. Ég verð að játa að ég er ekki enn búin að jafna mig og ná mér eftir að hafa hlýtt á þetta viðtal.
Hvernig svo konan kom þessari óþægilegu reynslu frá sér er aðdáunarvert.
Hins vegar líkar mér illa hvernig nú á að krossfesta starfandi biskup, sem fékk þetta ólíkindamál í fangið. Mál sem er svo afbrigðilegt og fáheyrt að undarlegustu skáldsögur hefðu ekki flutt neitt í líkingu við þessi ósköp.
Sú lenska viðgengst nú á tímum að það er fjöldi manna sem segir: "Dæmið manninn. Krossfestið manninn. Við vitum að hann er ekki afbrotamaðurinn en hann er hérna á staðnum og við viljum að réttlætinu verði framfylgt."
Það er sársaukafullt að horfa á þessar aðfarir. Þeir sem verða fyrir almenningsálitinu og eiga að taka við svipuhöggunum eru Geir Haarde vegna hinna seku útrásarvíkinga og séra Karl biskup fyrir Ólaf biskup.
Ég segi við fólk:
Gætið að tungunni að hún segi aðeins sannleika.
Gætið að hugsuninni að hún sé ætíð skír og komist að réttri niðurstöðu.
Geir Haarde er fyrir dómi til að friðþægja fyrir hina seku útrásarvíkinga
Séra Karl biskup Íslands er nú krafin um að friðþægja fyrir hinn seka biskup!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.