2.11.2011 | 00:38
Hver er sannkristinn - það er erfið spurning !
Í kvöldfréttunum var sagt frá allra heilagra messu og að sannkristnir Pólverjar mættu til helgihalds í því tilefni.
Ég fór aðeins að rýna betur í þetta mál og komst að því að Vottar Jehóva telja sig einnig vera sannkristna menn, og kannski eru þeir það. Þeir taka alla vega mjög alvarlega siðferðisboðorðin. Þó þeir séu svona ábyrgðarfullir þá fá þeir ekki inni í samfélagi kristinna manna, svo undarlegt sem það er.
Ég fór aðeins að hugsa um þessa sannkristni og er nokkurn veginn viss um að ég tilheyri ekki þeim útvalda hópi!
Ég trúi á líf eftir líkamsdauðann, ekki eilífan svefn, heldur virkt andlegt líf.
Ég trúi á einingu allra manna án tillits til litarháttar, trú, efnahag og annað sem þá aðgreinir hér á jörðunni.
Ég trúi því að kærleikurinn sé frumkraftur alheimsins og þegar við höfum þroskast inn í hann, þá ljúkist upp nýjir leyndardómar.
Þetta er nú ekki langur listi, en nægir til að ég finn ekki marga sama sinnis - og þó.
Ég var að lesa blogg Jóhönnu Magnúsdóttir, þar sem hún fer yfir tilvistarspurningarnar, og fleira sem hún nafngreinir og ég er fyllilega sammála - þá er hún sálufélagi minn!
Hún varpaði fram þessum spurningum:
"Hver er ég?"
"Mun ég einhvern tímann uppgötva hvers vegna ég lifi og hvers vegna ég dey?"
Vegna þess hvað það er erfitt að fá svör við svona spurningum, þá taka flestir það ráð að spyrja ekki, og láta hverjum degi nægja sína þjáningu.
Það er líka ákveðin heimsspeki í þeirri afstöðu. Jafnvel einhver auðmýkt, að játa sína andlegu fátækt og þörf fyrir handleiðslu.
Það er mikill vandi að umgangast tilvistarspurningarnar og eitt er víst að sá sem hefur fundið sannleikann að eigin sögn, hann getur um leið glatað honum. Auðmýkt er því lykilatriði í allri þroskaleit og þar getur Thomas a Kempis kennt okkur mikið því hann vígði líf sitt auðmýkt og ást til Krists. Hrein opinberun að lesa "Breytni eftir Kristi", sem hann er höfundur að.
Kvöl og pína Krists var drifkraftur trúar Thomas a Kempis
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.