3.11.2011 | 13:32
Trúir þú á kraftaverk ?
Ég var staddur í mannfagnaði. Þar var maður sem tekur lífinu létt og grínast og skemmtir sér.
Einhvern veginn fóru viðræður inn á einhver trúarsvið og þá kemur maðurinn upp að mér og segir í nokkrum hálfkæringi: "Trúir þú á kraftaverk ?"
Ég hefði getað svarað þessu á svipuðum nótum og því var beint til mín, en ég kaus að segja við hann í vinsemd og einlægni: "Já, ég trúi á kraftaverk!"
Svo varpaði ég fram spurningu til hans á móti: "Finnst þér ekki sjálfur, þegar þú lítur í spegil, að þú sért kraftaverk ?"
"Jú, það finnst mér!", svaraði hann eftir smá hik og umhugsun, og rómur hans var einlægur.
Við skildum svo í mikilli vinsemd frá þessu samtali. En ég hef meira við það að bæta.
Hugsið ykkur hvað þetta er stórkostlegt að jörðin (náttúran - moldin - jurtirnar - dýrin - mennirnir) skuli senda frá sér fyrirbæri sem kallast líf og sem nær því að geisla út hinni andlegu veröld (hugsanir, tilfinningar, kærleika, kulda, visku, draumum, nýjar óþekktar hugmyndir, óskir og þrár ), sem við svo opinberum sjálf með orðum okkar og verkum hér í efnisheiminum.
Við ættum að geta sameinast um, að þar er kraftaverk sem flestir sjá með eigin augum og geta vonandi skilið með svipuðum hætti.
Mynd frá Borgarnesi - Fjallið handan fjarðarins er fulltrúi frumnáttúrunnar - Gróðurinn í forgrunni er fulltrúi fíngerðari náttúru - Byggingarnar eru svo afurðir mannsandans -
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.