9.11.2011 | 13:18
Ég hef fulla samúð með fjölskyldu Ólafs biskups
Mér finnst nauðsynlegt að árétta það enn og aftur, að ég hef einlæga samúð með fjölskyldu Ólafs biskups heitins.
Það er sárt að standa í hennar sporum og þau eiga mína samúð óskipta.
Hins vegar breytir það ekki eðli þessa máls, að maðurinn hefur verið ásakaður af fjölda kvenna, sem ákæra hann fyrir kynferðislega áreytni gegn sér.
Svo að lokum kemur sjálf dóttir hans og segir sína átakanlegu sögu. Segir þá sögu svo heiðarlega og einlægt að hún er eins trúverðugt vitni eins og framast er hægt að hugsa sér.
Getur eitthvert réttarkerfi sniðgengið alla þessa aðila og sagt þá marklausa?
Þegar mál fara fyrir dóm þarf sekt að sannast og það er þrautin þyngri, eins og dæmin sanna.
Þess vegna sleppa margir sekir aðilar, því þeir njóta vafans, sem þeir eiga rétt á.
Í þessu máli nær réttarkerfið ekki niðurstöðu sem er óyggjandi. Við það verðum við að búa.
Þegar við svo veljum okkur þann stað sem við viljum standa á - að vera með eða á móti aðilum málsins og sakargiftum hinna mörgu sem að því koma, þá verður það hjá öllum einungis huglægt og aldrei endanlegt.
Við það verðum við að búa, og þess vegna er rétt að láta hér staðar numið. Alla vega ætla ég að gera það, um leið og ég bið fyrir öllum málsaðilum, því þetta er ein allsherjar sorgarsaga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.