5.12.2011 | 13:35
Aðventan og fólkið sem færir gleði út í þjóðfélagið
Fjölmargir koma að alls kyns sjálfboðaliðsstarfi í þjóðfélaginu. Sérstaklega eru listamenn hvers konar fjölmennir.
Kirkjukórar út um allt þjóðfélagið færa með sér mikinn unað og fegurð með söng sínum. Í gær fór ég ásamt skyldfólki mínu í Kálfatjarnarkirkju. Þangað var ánægjulegt að koma og vetur konungur sá um sjónrænu hliðina á leið í kirkju!
Fallegt var um að litast á Vatnsleysuströndinni, þar sem amma mín ólst upp og síðan fermdist í þessari fallegu sveitakirkju.
Um kvöldið var svo athöfn í Fríkirkju Hafnarfjarðar. Þar er nú aldeilis mikið um að vera. Kórinn fjölmennur og flottur. Þar eru sungin falleg lög sem ilja og gleðja kirkjugesti, sem oftar en ekki er mjög margir. Í gær var kirkjan troðfull á báðum hæðum.
En þar með er sagan ekki öll. Í morgun fór ég í heimsókn á stofnun sem hefur umsjón með eldra fólki, sem þarf á aðstoð að halda.
Þegar ég kom þangað þá var Gaflarakórinn að syngja aðventusöngva fyrir vistmenn. Ég settist niður og naut tónleikanna með fólkinu. Það voru sunginn falleg jólalög og ég uppgötvaði á leiðinni heim, er ég sönglaði undir stýri, að þessi góði sönghópur hafði fyllt mig innilegri jólagleði!
Ekki slæmt að hafa gleðina með í farteskinu. Reyndar er öll hógvær gleði af hinu góða.
Kálfatjarnarkirkja í dýrðlegri litafegurð
Kór Fríkirkjunnar í Hafnarfirði
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.