26.12.2011 | 16:41
Hitler og Stalín og ógnarstefnur allra tíma
Okkur er gjarnt á að persónugera illsku heimsins í fáeinum mönnum, eins og þeim Hitler og Stalín.
Við leitum að lausnum frá þessari illsku.
Það má ekki gleymast, að hver og einn einasti einstaklingur hefur ómælda þýðingu, þegar kemur að því að dempa hið illa og auka gæskuna.
Í tilfelli Hitlers þá komu saman vondir menn og sameinuðust um illvirki. Þeir notfærðu sér neyð almennings og spiluðu á almenningsálitið.
Þannig komust þeir til valda og smátt og smátt hertu þeir tökin.
Að lokum var svo þessi hatrammi boðskapur orðin fullmyndugur í einum manni - Hitler varð einvaldur.
Vald spillir og algjört vald gjörspillir. Þetta höfum við komist að, meðal annars eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar Þýskaland var opnað og það sást inn í ótrúlegan hryllinginn.
Það er sammerkt með þessum grimmu harðstjórum að þeir loka fyrir augu og munn almennings. Ekkert má vitnast, enda skiljanlegt að hryllingurinn mun ekki auka á vinsældir ráðamanna.
Stalín var einnig einvaldur í sínu ríki og ógnin var skelfileg - allri mennsku úthýst.
Það er hins vegar svo skrítið að enn í dag eru hörmungar um alla jörð og mannkynið lærir seint að bæta sig.
Sjáið Norður-Kóreu, Íran, Afganistan.
Sjáið hvað blóðið rennur í Sýrlandi, Egyptalandi, Írak og svo má áfram telja.
Við erum ekki blind á þessa sorglegu tilveru, en við erum að reyna að benda á, að það er til ljós í myrkrinu og að það sé fullt af fólki sem reynir að lýsa upp hversdagsleikann og gefa okkur hlutdeild í fallegri heimi.
Við erum ekki lokuð né blind fyrir hinu vonda, en við höfum valið þá leið að vera boðberar fyrir betri tilveru.
"Þar sem fegurðin ein ríkir, ofar hverri kröfu", eins og Halldór Kiljan Laxness orðar það
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.