Í Guðs bænum gott fólk - stígið fram!

Þessi pistill er ætlaður fólki sem hefur jákvæða afstöðu til kristinna siðferðisgilda.

Ég legg til að þeir sem ekki fylla þann flokk láti hér staðar numið og lesi ekki lengra.

Já gott fólk, þið sem hafið samúð eða jafnvel elsku til kristinna siðferðisboðorða.

Verið ekki of hlédræg þegar kemur að því að láta í ljós samúð og stuðning við kristin siðferðisviðmið.

Ég hef tekið eftir, að það er margt vel gert fólk, sem heldur sig til hlés og lætur lítið fyrir sér fara á mannamótum, vegna þess að það elskar friðsamlegt samneyti við alla nálæga.

Slíkt er svo sannarlega jákvætt og eðlilegt í allra hæsta máta, en þegar harðir andstæðingar okkar siðferðisboðorða gera sig gildandi, þá er enginn ástæða til að fela okkar viðhorf, þó auðvitað séu þau ætið borin fram af þeirri háttvísi sem innihald boðskaparins kallar á.

Maður sér svo oft á mannamótum að það eru ýmsir sem eru svo vissir um eigin málstað og hans ágæti, að þeir ganga hart fram með sín sjónarmið, þó svo að þessi sjónarmið gangi þvert á okkar eigin viðmið.

Þegar svo háttar, þá legg ég til að við öll höldum til haga eðlilegum kristnum siðferðisgildum og játumst undir að aðhyllast þau.  Þar er ekkert sem þarf að fyrirverða sig fyrir, síður en svo.

Kristur var krossfestur fyrir þúsundum ára, fyrir þá sök eina að vera boðberi siðferðisgilda sem ekki heyrði þeim tíma til. Ekki fer ég fram á að neinn taki á sig slíkar byrðar, heldur sé hreinskilin um  þá lífsskoðun sem við berum í brjósti.

Til að botna þessar hugleiðingar langar mig til að láta fylgja hér þrjár bænir eftir Hallgrím Pétursson:

Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.

--

Verkin mín, Drottinn, þóknist þér,
þau láttu allvel takast mér,
ávaxtasöm sé iðja mín,
yfir mér vaki blessun þín.

--

Nú er ég klæddur og komin á ról,
Kristur Jesús veri mitt skjól,
í guðsóttanum gef þú mér
að ganga í dag svo líki þér.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband