28.3.2012 | 01:25
Póker er áhættufíkn sem ber að vara við
Í Fréttablaðinu birtist grein eftir pókerspilara sem telur sig í fullum rétti til að spila póker upp á háar peningafjárhæðir.
Ég vil gjarnan að þetta fjárhættuspil verði bannað sem mannskemmandi athöfn, enda fylgja henni niðurbrjótandi siðir.
Í mínum heimabæ var maður sem eyðilagði gjörsamlega líf sitt með því að stunda spilakassana margræmdu sem eru í flestum sjoppum. Þó eru þeir taldir til skaðminni tóla, en þessi maður missti allt sitt, þó hann væri að öðru leyti hinn vænsti maður.
Enn meiri hætta fylgir pókerspili og ættu allir ærlegir menn að letja fólk til að koma nálægt slíkri eyðandi fíkn.
Í spilavítum heimsins er fólk tekið út úr hversdagsleikanum og það látið gleyma sér við skreytingar og ljósadýrð á meðan það tapar öllu sínu fé.
Einn og einn fær vinning til að halda fólki við efnið og láta það tína sér í þeirri trú að það geti unnið stórar upphæðir.
Í þessu sem öðru þar sem græðgin er leiðandi kraftur, fylgir ekkert nema óhamingja þeim sem þann veg ganga.
Í sveitinni í gamla daga lærði ég að spila Lomber. Það taldist vera peningaspil, en var það ekki í raun og veru, vegna þess að aðeins var spilað upp á smápeninga. Minn kennari talaði um 25 aura rasl, en það var svo geymt í krukku þar til næst var spilað! Enginn tapaði krónu.
Hér má lesa grein pókerspilarans.
Það er hreint ótrúlegt að lesa þessa grein og þær afsakanir og einfaldanir sem höfundurinn kemur með til réttlætingar sinni fjárhættufíkn.
Gjörið svo vel og metið það sjálf hversu heilbrigð ykkur finnst þessi iðja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.