31.3.2012 | 13:06
Við finnum ekkert nema við leitum
Við leitum ekkert nema að hafa einhverja trú, eða í það minnsta einhverja forvitni, sem rekur okkur áfram:
1. Í leit að lífi á öðrum hnöttum.
2. Í leit að lífi eftir þetta líf.
3. Í leit að eilífri æsku.
4. Í leit að hinni einu sönnu hamingju.
5. Í leit að sannleika og innsta kjarna hlutanna.
6. Í leit að hinni einu sönnu stjórnmálastefnu.
7. Í leit að endalausu jarðnesku lífi.
Það sem talið er upp hér að framan, er allt saman utan seilingar mannsins.
Þó er á öllum tímum verið að stefna að því að nálgast eitthvað af þessu.
Draumurinn um að geta talað við mömmu þó hún búi óralangt í burtu, hefur nú þegar ræst hjá mér.
Mamma mín býr í Danmörku og ég er alltaf jafn hissa þegar hún kemur í símann og segir við mig: "Sæll elsku drengurinn minn". Nú er ég ekki hissa vegna þess að hún er í talfæri, heldur hinu að hún skuli enn vera jarðarbúi og orðin 95 ára gömul!
Nánari hugleiðingar um markmiðin:
1. Ég læt stjörnufræðingum eftir að sýsla við þetta viðfansefni. Segi þó aðeins að þeir stjörnufræðingar sem segjast ekki leggja sig niður við að skoða UFO viðfangsefni, séu ekki líklegir til að finna neitt markvert yfirleitt, því eins og áður segir þá finnum við ekkert nema að leita.
2. Leit af lífi eftir þetta er líka þolinmæðisvinna. Reyndar vinna sem fer fram í hinum fíngerðari líkama okkar, þar sem við látum hinn jarðneska líkama hvíla í ró á meðan við leitum lengra inn í andlega heiminn. Þar á við hið sama að ekkert finnst nema við leitum. Við leitum ekkert ef við höfum ekki trú.
3. Eilíf æska er spennandi viðfangsefni. Nú eru mörg ráð á ferðinni til að efla heilsuna og halda í æskuna, en það er fyrsta skrefið til að höndla eilífa æsku.
4. Hin eina sanna hamingja er innan seilingar ef við gerum okkur far um að umgangast og umvefja þessa sýn með hreinleika hjartans og trú á að það sé mögulegt að höndla hamingjuna og viðhalda henni.
5. Í leit að sannleikanum krefst opins huga, einlægni, ómældrar þolinmæði og hugrekki.
6. Til að sjá stjórnmálaheiminn réttum augum, þá þarf að skilja mannlegt eðli. Allir hópar sem myndast utan um hugsjónir gera það í bestu meiningu. Allar hugsjónir eiga í sér hluta af sannleika tilverunnar. Það getur því ekki verið þannig að einn flokkur sé eigandi hinnar einu sönnu góðu stefnu. Enda sé ég hjá öllum flokkum samnefnara og gildi sem tilheyrir öllu mannkyninu. Þar má tilnefna tjáningar- og athafnafrelsi, jafnræði allra til lífsins gæða og svo má áfram telja.
7. Ef einhver vill lifa endalausu jarðnesku lífi, þá ætti hann að hugsa til Methúsalems sem talið er að hafi lifað í mörg hundruð ár. En hvað þá með samneytið við sína kæru vini og ættingja sem ekki geta fylgt okkur eftir með því að lifa svona lengi. Getur það verið að það sé ekki eftirsóknarvert að vera hér á jörðinni þegar allir ættingjar og samferðarmenn, svo ekki séu nefndir makar og börn, eru farin á vit feðranna? Líklega er það betra að falla í hvíld og koma svo aftur endurborinn, með meiri þroska í farteskinu og færari um að koma jarðarbúum áleiðis til fíngerðara og fegurra lífs.
Hvað finnst ykkur - hvaða drauma berið þið með ykkur inn í framtíðina ?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.