14.6.2012 | 12:35
Það er gott að búa í Kópavogi
Ég var að enda við að hlusta á útvarpsfréttir dagsins.
Þar kom fram að núverandi bæjarstjóri, sem er sjálfstæðismaður, hafi hækkað laun sín um u.þ.b. 25 prósent og sé þá komin með um eina og hálfa milljón á mánuði.
Skólamaður í Kópavogi hefur riðið á vaðið og lýsir hann vandlætingu sinni með þessa gjörð.
Ég bý í Hafnarfirði og er ekki tengdur þessu á neinn hátt og hef enga hagsmuni að verja, en finn hjá mér hvöt til að segja:
"Mér er ofboðið".
Við erum nýgengnir í gegnum hrun sem á að hafa í för með sér nýja hugsun og meiri hógværð.
Nú mun sjálfstæðisflokkurinn taka við stjórnartaumum landsins eftir næstu kosningar.
Ætla menn þar á bæ að bjóða landsmönnum sömu kræsingarnar og voru þegar græðgisvæðingin var sem svæsnust, eða ætla þeir að koma inn í landsstjórnina með meiri hógværð og meira jafnræði að leiðarljósi?
Það verður fylgst með öllum sjálfstæðismönnum hvar sem er á landinu. Fylgst með hvernig þeir hugsa og hvernig þeir tala, en umfram allt hvernig þeir framkvæma vald sitt, þegar þeir eru komnir með það í hendurnar.
Ég tek fram að bæjarstjórinn hefur enga afsökun og þeir sem hjálpuðu honum að ná þessu fram hafa hana ekki heldur.
Herra bæjarstjóri Kópavogs.
Vertu stórhuga og dragðu þessa gjörð hið snarast til baka og þú átt að biðja Kópavogsbúa afsökunar á dómgreindarbresti og græðgishugsun.
Ef þú gerir það þá á sjálfstæðisflokkurinn enn möguleika, annars ekki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.