Eigum við að hafna Guðstrú?

Því er fljótsvarað:

NEI

Ástæðan er sú að það væri sama axarskaftið og að kaupa ekki tölvu í dag, með þeim rökum að það verði betri kaup í þeim eftir nokkur ár!

Þá verða tölvurnar orðnar enn þá fullkomnari og ekkert vit í að kaupa slík tæki í dag, á meðan tæknin er í svona mikilli og örri framför.

Sannleikurinn er sá að ég er búin að heyra álíka sögur mörgum sinnum í gegnum árin.

Ég var einn af þeim fyrstu til að kaupa mér Commodore tölvu og notaði hana á skrifstofu minni með þakklátum huga. Þetta var frábært tæki, þó menn í dag myndu snúa sér undan og sveia yfir því hvað hún var frumstæð.

Hið sama á við um farsímabyltinguna. Þeir fyrstu gátu eiginlega ekki komist fyrir í vasa, því þeir voru svo þungir og fyrirferðamiklir.

Þessi augljósu dæmi úr nútímanum lýsa mjög vel þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir, þegar við þurfum að velja hvort við eigum að kaupa þá hugmynd núna, að Guð sé raunverulega til og sé Skapari þessa heims.

Ef við höldum áfram með samlíkinguna þá má halda því fram að hugmyndin um Guð muni taka breytingum í tímans rás og muni þá í framtíðinni falla betur að smekk mögulegra "kaupenda".

Ég sé fyrir mér að Guð fortíðarinnar sé löngu hættur að seljast og nú sé sá Guð miklu söluvænlegri sem er samnefnari fyrir alla sköpunina, þannig að mannkynið í heild sinni geti samþykkt algildan Guð sem leiðtoga í sínu lífi.

Guð fortíðarinnar var smár og hólfaður niður í þröngsýni og hatri, ef viðkomandi einstaklingur hneigði sig ekki fyrir honum. Sá Guð átti aðeins að vernda einn hóp en tortíma öðrum.

Í dag sjá flestir að þetta er ekki þess virði að leggja nafn sitt við. Að vilja sitja aðeins með sínum hópi og sjá aðra tortímast, það er ekki í nokkrum samhljómi við nútíma siðferðisviðmið.

Slíkur Guð höfðar ekki til margra í dag.

Þannig að maður sem horfir á Guð okkar daga og gefur honum svona lágkúrulega eiginleika er alveg auðskilin ef hann hafnar því að velja slíkan Guð.

Við slíkan mann segi ég, keyptu tövuna sem er í boði í dag, hún er miklu fullkomnari en hún var í gamla daga.

Auðvitað er fullt af fólki sem heldur á lofti gömlu hugmyndunum, en það gerir slíkt í algjörri fáfræði og það þurfum við að afsaka, enda getur enginn gert betur en hið besta sem hann hefur yfir að ráða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband