12.11.2012 | 18:13
Kirkjan sé óttalaus, staðföst og sterk.
Svona tekur kirkjumálaráðherra til orða í tilefni af þjóðarkosningunum um kirkjuna og er þetta vel sagt.
Einnig segir hann athyglisverða setningu: "...þjóðin og kirkjan munu fylgjast að í blíðu og stríðu og verða ekki aðskilin...", síðan segir að þjóðin viti að leiðin út úr vandanum sé "...ekki að höggva á rótina til að ganga inn í nýja veröld sögulaus og allslaus".
Þetta er vel sagt hjá Innanríkisráðherranum Ögmundi Jónassyni sem er verndari kirkjunnar.
Mig langar til að bæta við þessi orð frá eigin brjósti.
Við lifum á atómöld og öll heimsmyndin tekur breytingum eins og eðlilegt er.Það á við trúmálin eins og allt annað.
Nú er þungamiðja trúarinnar hjá okkur að benda á það sem sameinar og byggir upp.
Við erum eitt mannkyn og höfum öll innbyggt í okkur að stjórnast af kærleika. Það er ljós kærleikans sem á að vera okkar leiðarstjarna á atómöld.
Kirkjan sem við viljum eiga samleið með er alltaf meir og meir að samsama sig slíkum hugmyndum, sérstaklega á Íslandi. Við höfum lengi verið frjálslynt fólk og leyft okkur að hugsa á þeim nótum sem eru í samhljóm við hið besta sem innra með okkur býr.
Á þeim forsendum erum við kirkjulegir þátttakendur og berum á borð allt það besta sem við þekkjum. Komum þangað sem friðflytjendur og fríhugsandi fólk. Vegna þessarar frjálslyndu afstöðu okkar kirkjulegu arfleifðar þá hafa rúmast róttækari trúarhugmyndir hjá Íslendingum en mörgum öðrum og við verið lausir við óþægilega þröngsýna afstöðu í ýmsum greinum, sem hefði getað hrakið fólk frá kirkjunni. Boðskapur og mannrækt kirkjunnar kemur fram í þjóðlífinu, með alls kyns löggjöfum um sjúkratryggingar og almennar tryggingar sem allar miða að því að fólkið geti átt sómasamlegt líf.
Allt þetta viljum við halda í og hafa olnbogarými til að auka við og endurbæta.
Hallgrímskirkja í Reykjavík var byggð til heiðurs okkar
mikla sálmaskáldi Hallgrími Péturssyni og til þakklætis
fyrir hans siðbótarstarf sem fram kemur í versum hans
og bænum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.