23.8.2013 | 12:42
Fjölbrautarskólinn Selfossi ryður brautina
Það gerir skólinn með því að taka á móti nýnemum að siðaðra manna hætti.
Eins og almenningur hefur fylgst með í gegnum árin, þá hefur verið mikið niðurlægingaskeið í framhaldsskólum, þegar kemur að móttöku nýnema.
Þetta unga og óreynda fólk óttaðist um velferð sína, þegar það mætti í framhaldsskóla í fyrsta sinni. Í stað þess að tekið væri á móti þeim með virðingu og velvild þá var þeim mætt með ofbeldi.
Svo undarlega vildi til að skólastjórar hættu að stjórna skólum sínum, en létu stjórnina í hendur á eldri skólanemendum. Auðvitað fóru þeir nemar fremstir sem voru framhleypnastir og líklegri til að ganga öfgum á hönd.
Þá sorgarsögu þekkja allir landsmenn.
Nú er sem sagt endurreisnartímabilið hafið!
Verslunarskóli Íslands hefur alltaf haldið höfði og verið vandur að virðingu sinni. Því miður hefur það góða fordæmi ekki dugað til. Mér hrís hugur við hvað niðurlægingin náði langt hér í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, en sá skóli var ekki einn, því virðulegir skólar út um allt misstu sig í straumi tískunnar.
En tónninn sem var gefinn frá Fjölbrautarskólanum á Selfossi í dag, verður vonandi aflvaki sem dugar til að vekja allt landið, svo þetta niðurlægingarskeið taki algjörlega enda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.