27.8.2013 | 21:45
Fólk á að borða heilkorna brauð, segir Landlæknir
Guð láti gott á vita, sagði fólkið í gamla daga, þegar einhver tók sig á og bætti ráð sitt með góðu innleggi.
Þetta datt mér í hug er ég sá ráðleggingu frá Landlækni með áeggjan um að fólk borðaði gróft brauð. Heilkornabrauð draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki af tegund 2.
Einnig hafi trefjaríkar vörur góð áhrif á meltinguna og rannsóknir bendi til að neysla trefjaríkra vara úr jurtaríkinu dragi úr líkum á ristilkrabba.
Mjög gott framtak hjá Landlækni.
Ég vona að þetta sé fyrsta skrefið á langri farsælli vegferð, þar sem læknasamfélagið fari að líta heildstætt á sjúkdóma og heilsu. Þá munu þeir sjá að mikið verk þarf að vinna ef menn óska þess að hækka lýðheilsuna með bættum neysluvenjum og lífsstíl.
Það verður bara að hafa það, þó að minna verði að gera hjá læknum yfirleitt, því þeir eru nú svo yfirhlaðnir að það er einmitt þörf á að grisja í sjúkdómagarðinum. Svo þegar þeir loksins geta um frjálst höfuð strokið, þá fá þeir meiri tíma til að hjálpa þeim, sem raunverulega eru hjálpar þurfi, vegna þess að þeirra vandi og sjúkdómar eru af erfiðari tegund, heldur en þessir venjulegu lífsstíls sjúkdómar.
Fréttablaðið í dag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.