14.11.2013 | 14:04
Gálgahraun og gálgahúmor.
Fyrirsögn mína set ég hér fram, til að lýsa hugleiðingum undanfarinna vikna, vegna þeirra deilna sem blossað hafa upp um Gálgahraun.
Reyndar vissi ég ekki, að til væri neitt sem heitir þessu nafni, enda er allt Hafnarfjarðarsvæðið hlaðið hrauni, hvar sem litið er.
Þegar ég gekk upp gamla Linnetsstiginn með afa mínum forðum daga fyrir svona 65 árum, en hann átti heima að Hverfisgötu 22 í Hafnarfirði, þá höfðum við aðeins gengið svona 100 til 150 metra, er við vorum komnir í kartöflugarðinn sem hann átti þarna í hrauninu.
Nú er þetta mikla hraun og garðar og skúlptúr og gljúfur og hvað á að nefna allar þessar hraunmyndir sem koma fram út um allt, horfnar sjónum manna og í staðinn er kominn bær sem heitir Hafnarfjörður.
Það er nú einu sinni gangur tímans, að mennirnir setjast niður á ákveðnum stöðum, þar sem álitið er að gott sé að búa, og þar byggja þeir sér hús og láta fara vel um sig.
Í framhaldi að byggingum á Álftanesi og í Garðabæ, þarf svo að fara yfir enn eitt hraunið til að byggja vegi um þessar byggðir.
Hvað gerist þá?
Jú, það koma nokkrir menn og þeim finnst að heimurinn sé að hrynja, vegna þess að nú þarf að gera veg yfir enn eitt hraunið.
Og hvað er svona merkilegt við þetta óyfirstíganlega hraun?
Jú, það var hann góðvinur okkar Kjarval listmálari, sem hafði séð kynjamyndir í blessuðu hrauninu, og því var það orðið mun dýrmætara heldur en það annars hefði orðið.
Og dýrmætara heldur en allt það hraun sem enn er til í milljónum tonna út um allt Ísland.
Kannski á fólkið málverk eftir listamanninn og renni því blóðið til skyldunnar að vernda vinnustaðinn, þó að Kjarval sjálfur sé hættur að nota það sem fyrirmynd.
Eða að það er orðið svo fast í því að vernda ýmsa staði náttúrunnar, sem hafa átt undir högg að sækja, að þetta hraun var eins og hvert annað framhald á því þarfa starfi.
Ekki veit ég, en finnst samt að hér sé farið offari, þar sem mannlífið á ekki að njóta sín, heldur eingöngu náttúran.
Er ekki hægt að hugsa sér friðsamari sambúð manns og náttúru?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.