Ég hef verið að furða mig yfir að enginn skyldi taka af skarið og segja skírt og skorinort að slík þvingun væri þvert brot á einstaklingsfrelsinu.
Ekki heyrði ég í nokkrum málsmetandi manni koma inn á þetta atriði, samhliða öllum talandanum sem fór í gang út af þessu þrætumáli. Nú hef ég séð yfirlýsingu úr kommentakerfi, frá alþingismanni Pírata, Helga Hrafni Gunnarssyni, þar sem hans afstaða er kristalskýr og algjörlega fullnægjandi fyrir mig. Það er sérstaklega hrósvert (þó það sé sjálfsagt að gera það) að hann hafði enga fyrirvara, málið var svo hreint og beint að hans sögn.
Reyndar er það búið að vera mér undrunarefni að Heilbrigðisráðherrann okkar skuli aldrei hafa nefnt það samhliða bólusetningaskyldu, að það brjóti í bága við stjórnarskránna og lýðræðisríkið og stefnu flokksins, og komi þar af leiðandi ekki til greina. Reyndar fór um mig hrollur er ég heyrði hann tala um þetta sem einhvern hugsanlegan möguleika.
Einnig að þegar verið er að leggja fyrir fólk leiðandi spurningar, eins og Fréttablaðið gerði í könnuninni í vikunni, að fólk hafði ekki verið upplýst um, að reyndar væri þessi hugmynd andvana fædd, því að hún bryti í bága við stjórnarskránna og lýðræðishugtakið eins og haldið er utan um það hér á landi.
Mér er það undrunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn, sem stofnaður er utan um einstaklingsfrelsið, hafi ekki átt svo kröftuga málsvara fyrir stefnu sinni, að þeir tækju myndarlega af skarið eins og Helgi Hrafn gerir hér.
Vonandi eiga þeir það þá eftir og geri það þá svo skýrt að aldrei verði misskilið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.