4.12.2013 | 20:50
Læknir varar við kukli
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var viðtal við lækni sem varar okkur við kukli.
Þegar hann var spurður nánar um hvaða kukl hann hefði í huga, kom fram að hann teldi það vera Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og Hómópatíu.
Það er mjög viðkvæmt þegar fólk fer að kasta grjóti úr glerhúsi, því það getur hitt hann sjálfan fyrir.
Ég hef aldrei heyrt um að þessar svokölluðu kuklgreinar, sem hér að ofan eru nefndar slíku nafni, hafi valdið nokkrum manni tjóni.
Hins vegar hef ég heyrt margar sögur um að aðfarir lækna hafi ekki endað eins og til var stofnað.
Ég fer ekkert nánar út í þá hlið málsins, en vil beina athygli manna að nokkrum atriðum sem varða þetta mál, og ekki mega liggja í þagnargildi, þegar maður úr glerhúsi hendir fyrsta steininum.
Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð.
Samkvæmt Vísindavefnum (www.visindavefur.is) þá mun Dr. William Sutherland (1873-1954) hafa verið fyrstur til að átta sig á þessu kerfi, sem samanstendur af beinum höfuðs, hryggjar, spjaldhryggs og mjaðma, öllum himnum heila og mænu, ásamt þeim líffærum sem tengjast framleiðslu og frárennsli heila- og mænuvökva. Kom hann fram með kenningar um að hægt væri að hreyfa höfuðbeinin og hafa þannig áhrif á starfsemi heila og heilatauga. Þessi meðferð nefnist á ensku croniosacral therapy.
Hvað þessi meðferð hefur með kukl að gera er mér hulin ráðgáta.
Hómópatía.
Frægt er að Englandsdrottning er mikill aðdáandi hómópatíu og notar þær mikið. Þó hefur hún aðgang að færustu læknum sem landið hefur upp á að bjóða.
Ætlar okkar læknir að banna drottningunni að njóta þeirra aðferða sem hún hefur mesta trú á að virki fyrir sig?
Það væri ekki gott innlegg í hugsanagang fólks á okkar tímum, þegar almenningur í reynd er að krefjast heilsufrelsis og fá að njóta þeirra lækninga sem hver og einn kýs.
Það verður umræddur læknir að gera sér ljóst, að þær aðferðir sem hann kallar kukl, hafa ekki verið til vandræða, nema síður sé, og eiga fullt tilkall til að vera frjálsar meðal frjálsra manna .
Læknirinn er að vernda starf sitt.
Það er augljóst að læknirinn er að vernda starf sitt, þegar hann heggur á báðar hliðar.
Það ætti hann ekki að gera, vegna þess að hann bætir ekki heilsu nokkurs manns, með því að útiloka einhvern hóp frá því að leita sér hjálpar, þar sem hann telur sig geta fengið hana.
Læknar gegn læknum.
Svo eru það starfsbræður umrædds læknis. Það er fjöldi lækna sem eru ekki sáttir og skrifa ekki undir núverandi meðferðarmáta læknasamfélagsins. Mjög margir telja það ranga nálgun gegn sjúkdómum að gefa lyf við mismunandi sjúkdómseinkennum og segja frekar, að sjúkdómar séu samtal líkamans við eiganda sinn, og það þurfi að túlka þetta samtal.
Það sé í raun einhver grundvallarvandi sem veldur sjúkdómum, til dæmis rangur lífsstíll, rangt mataræði, vannært tilfinningalíf, að líkaminn sé eyddur frá báðum endum og sé að gefast upp. og fleira og fleira.
Ekki getur læknirinn sakað starfsbræður um skottulækningar, og ekki getur hann sagt að aðeins hans nálgun á lækningu, sé hin eina rétta. Vegna þess að það eru margar aðferðir sem geta læknað fólk.
Sumir eru einfaldlega í þörf fyrir góða hvíld, útiveru, hreint loft, hreint vatn og heilbrigðan nærandi og uppbyggjandi mat.
Allt er þetta meðferð í lækningu sjúkra og ekkert af því getur umræddur læknir kallað skottulækningar.
Ég ráðlegg læknum að fara sér hægt og sýna heldur víðsýni heldur en þröngsýni.
Það er lífsnauðsyn fyrir fólkið, sem læknarnir hafa lagt eyð að því að hjálpa, að vera opnir fyrir ölllum þeim leiðum sem koma sjúklingunum til heilsu.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
22.11.2013 | 10:20
Hvítur sykur er fremstur óvina þinna
Nú eru þessi sannindi að komast í hámæli.
Hafið þið hugsað út í það hvað það er mikið rask að hætta neyslu á hvítum sykri?
Fyrst þarf að henda út öllum kökum og tertum eins og það leggur sig. Þar er mikil flóra sem húsmóðirinn þarf ekki lengur að sýsla með í eldhúsinu!
Öll veisluhöld verða einfaldari!
Það má heita gott ef sykurneitandi (sá sem neitar sér um sykur), fær nokkuð að borða! Kannski brauðbita.
En hvað sem því líður, þá legg ég til að fólk taki á þessum vanda, því hann er yfirþyrmandi orðin, og veldur svo mörgum sjúkdómum að það kæmist ekki fyrir í stuttri grein.
Hvenær kemur að því að læknarnir fara að gefa góð ráð að þessu leyti.
Krabbamein þrífst á því að sjúklingurinn neytir sykurs. Þannig að fyrsta sem sjúklingurinn á að breyta, er að forðast sykur eins og heitan eldinn. Einnig allt sem breytist í sykur eftir að hafa verið borðað, eins og allt sem inniheldur hvítt hveiti.
Tíu ástæður til að forðast sykur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2013 | 14:04
Gálgahraun og gálgahúmor.
Fyrirsögn mína set ég hér fram, til að lýsa hugleiðingum undanfarinna vikna, vegna þeirra deilna sem blossað hafa upp um Gálgahraun.
Reyndar vissi ég ekki, að til væri neitt sem heitir þessu nafni, enda er allt Hafnarfjarðarsvæðið hlaðið hrauni, hvar sem litið er.
Þegar ég gekk upp gamla Linnetsstiginn með afa mínum forðum daga fyrir svona 65 árum, en hann átti heima að Hverfisgötu 22 í Hafnarfirði, þá höfðum við aðeins gengið svona 100 til 150 metra, er við vorum komnir í kartöflugarðinn sem hann átti þarna í hrauninu.
Nú er þetta mikla hraun og garðar og skúlptúr og gljúfur og hvað á að nefna allar þessar hraunmyndir sem koma fram út um allt, horfnar sjónum manna og í staðinn er kominn bær sem heitir Hafnarfjörður.
Það er nú einu sinni gangur tímans, að mennirnir setjast niður á ákveðnum stöðum, þar sem álitið er að gott sé að búa, og þar byggja þeir sér hús og láta fara vel um sig.
Í framhaldi að byggingum á Álftanesi og í Garðabæ, þarf svo að fara yfir enn eitt hraunið til að byggja vegi um þessar byggðir.
Hvað gerist þá?
Jú, það koma nokkrir menn og þeim finnst að heimurinn sé að hrynja, vegna þess að nú þarf að gera veg yfir enn eitt hraunið.
Og hvað er svona merkilegt við þetta óyfirstíganlega hraun?
Jú, það var hann góðvinur okkar Kjarval listmálari, sem hafði séð kynjamyndir í blessuðu hrauninu, og því var það orðið mun dýrmætara heldur en það annars hefði orðið.
Og dýrmætara heldur en allt það hraun sem enn er til í milljónum tonna út um allt Ísland.
Kannski á fólkið málverk eftir listamanninn og renni því blóðið til skyldunnar að vernda vinnustaðinn, þó að Kjarval sjálfur sé hættur að nota það sem fyrirmynd.
Eða að það er orðið svo fast í því að vernda ýmsa staði náttúrunnar, sem hafa átt undir högg að sækja, að þetta hraun var eins og hvert annað framhald á því þarfa starfi.
Ekki veit ég, en finnst samt að hér sé farið offari, þar sem mannlífið á ekki að njóta sín, heldur eingöngu náttúran.
Er ekki hægt að hugsa sér friðsamari sambúð manns og náttúru?
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2013 | 15:22
Bólusett fyrir staðreyndum?
Þetta er fyrirsögn á leiðara Fréttablaðsins í dag.
Það gleður mig að fólk skuli almennt vera að vakna gegn þessari vá, sem bólusetningarmanían gengur út á.
Sannleikurinn er sá að það takast á tvö kerfi.
Annars vegar er það heilsuefling, sem borin er uppi af þekkingu á lífgefandi mat og heilbrigðum lifnaðarháttum. Sem hefur aukið neyslu á grænum mat af öllu tagi, og minnkað neyslu á kjöti og iðnaðarvörum úr hveiti og sykri.
Hins vegar er voldugt kerfi, sem borið er uppi af lyfjaiðnaðinum. Þetta volduga og ofur ríka kerfi viðheldur sér með peningaaustri í allar áttir. Það styrkir læknaskólana og lærdómssetrin, og það menntar læknana sem síðan ávísa lyfjunum sem iðnaðurinn býr til. Iðnaðurinn gerir út vísindamenn til að rannsaka allt mögulegt, m.a. hvort einhverjar aukaverkanir séu af lyfjunum sem þeir, eða samstarfsmenn búa til. Einnig eru fengnir vísindamenn frá öðrum aðilum, sem þá teljast óháðir. Ef niðurstöður rannsóknanna eru ekki nógu hlíðhollar þessum iðnaði, þá er þeim stungið undir stól, en aðeins hagstæðar niðurstöður eru notaðar. Innan þessa kerfis er því hagur af að hann gangi vel, að lyfin seljist og fólkið í verksmiðjum þeirra hafi framfærslu sína tryggða. Sama á við um heilbrigðisgeiran, að hann heldur uppi velvild til þessa kerfis, og neikvæðar hliðar hans eru því settar til hliðar, svo allir geti verið vinir og unað glaðir við sitt.
Þekkt fyrirtæki Monsanto, er af þessum meiði og gerir út á að erfðabreyta matvörunum okkar. Það segir sína sögu um samtrygginguna, að Forstjóri Monsanto fær The World Food Prize 2013, líklega fyrir það framtak að erfðabreyta matvörum okkar!
Svona er veruleikinn fjölbreyttur og spurningin um, hvort bólusett er fyrir staðreyndum stendur enn á sínum stað og var ekki svarað í leiðara dagsins!
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2013 | 13:55
Alvarleg ábending til landbúnaðarins
Íslenskt smjör verður merkt erfðabreytt!
Það eru alvarlegar fréttir, sem landbúnaðurinn í heild sinni þarf að taka mark á.
Til að komast inn í viðskiptaheiminn með hreint nafn og að gæði séu hafin yfir allan vafa, þá þarf landbúnaðurinn að lagfæra strax það sem út af stendur til að hreinsa sig af erfðabreyttum matvælum.
Eins og allir bændur ættu að vita, þá fylgir því ábyrgð að framleiða fæðu fyrir mannkynið.
Þeir þurfa að afla sér þekkingar eins og aðrir og fara eftir því sem best verður gert, með því að velja fóður fyrir sín dýr, sem er í hæsta gæðaflokki.
Fóður sem framleitt er með erfðabreyttum hætti á að vera í ruslflokki og Ísland á að hreinsa sig af allri slíkri óværu.
Fyrirlestur Dr. John Fagan má sjá hér.
19.9.2013 | 10:18
Góðar fréttir!
Fólk er að vakna!
Ég átti eftir að lesa Fréttablaðið frá í gær, og gerði það því í morgun.
Á blaðsíðu 7 varð gleði mín mikil, því þar var heilsíðuauglýsing frá NLFÍ (Náttúrulækningafélagi Íslands).
Í auglýsingunni eru mál áréttuð sem ég hef borið sérstaklega fyrir brjósti. Hafði reyndar haft á tilfinningunni að það væri aðeins ég og fáeinir aðrir sérvitringar sem létu sig mál erfðabreyttra matvara varða, og óhefðbundnar lækningar, eða ættum við að segja heildrænar lækningar.
Þessi tvö stóru mál eru þarna ásamt öðrum góðum og uppbyggjandi áherslum.
Gleði mín er mikil að NLFÍ skuli setja þann þunga í málefni þessi, að þeir koma með heilsíðu auglýsingu til að tjá sig um þau.
Eiginlega hélt ég að tími hugsjóna væri að renna sitt skeið, en nú tek ég gleði mína á ný!
Ég segi bara, kærar þakkir, kærar þakkir.
Umrædd auglýsing.
6.9.2013 | 11:20
Fulltrúar æðri skóla (Menntaskóla Reykjavíkur)
Enn er skellt framan í okkkur óhugnanlegum myndum af fulltrúum æðri menntunar, þar sem þeir leika eitthvað allt annað en virðulega framhaldsskólanema.
Mér verður hugsað til upphafsára þessarar menntastofnunar, þegar nemendur í fátæku samfélagi hófu nám, að þeir lögðu metnað sinn í að vera vel til fara, eins og hæfði umhverfinu.
Þess var krafist af skólastjórnendum að þannig kæmu nemendur til kennslu.
Klæðnaður nemenda á fyrri hluta 20. aldar.
Hvernig stendur á því að skólastjórnendur nútímans eru hættir að vera uppalendur, en eru þess í stað staddir á sömu sveiflu eins og nemendurnir.
Vita þeir ekki hvar þeir standa í stiganum, að þeir eiga að vera fyrirmyndir og leiðarstjörnur?
Vita þeir ekki að það er enginn forustumaður, nema að hann sýni af sér, með eigin framkomu, hvað nemendur eiga að stefna að?
Ég er hryggur yfir stöðu skólamála sem eru svona laus í reipunum.
Það virðist vanta einnhvern snefil af sómakennd, hófsemi, velvild, virðingu og sannri forustu fyrir þetta fólk.
Það virðist koma úr umhverfi, þar sem þessi gildi eru ekki lengur í heiðri höfð, og það sem verra er, að skólastjórnendur sömu menntastofnana, eru jafn volgir í afstöðu sinni.
Virðulegt merki Menntaskólans í Reykjavík.
Fulltrúar Menntaskólans í Reykjavík 2013
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2013 | 14:58
Fluorblöndun drykkjarvatns var einu sinni heilsuefling!
Fróðlegt er að líta til baka, ekki síst þegar maður gekk á móti straumnum, en hefur nú fengið almenningsálitið yfir á sitt band.
Fluor er alvarlegur skaðvaldur og sú var tíðin um 1979 að til stóð að blanda fluor í drykkjarvatn Vestmanneyinga.
Sem betur fer, þeirra vegna, varð ekkert úr fyrirætluninni, en ráðabruggið hratt af stað miklum mótmælum, sérstaklega á vegum Heilsuhringsins sem þá var nýstofnaður.
Þessi félagsskapur var skipaður "sérvitringum", eins og sagt er um þá sem eru í minnihluta hvað varðar almenningsálitið. En það er gjarnan slíkt fólk sem ryður brautina fyrir hina, sem ekki nenna að setja sig inn í málin og vilja láta "sérfræðingana" um að hugsa fyrir sig. Því miður getur slík afstaða verið mjög varasöm, eins og dæmin sanna bæði þá og í nútímanum.
Mönnum til upprifjunar set ég hér tvær greinar inn á síðuna, svo hægt sé að lesa sig eitthvað til og fá smá tilfinningu fyrir tíðarandanum á þessum árum.
Hér er yfirlit yfir baráttuna gegn fluorblöndun drykkjarvatn árið 1979 fyrri hluti
Hér er framhald greinarinnar, seinni hluti.
Hér er baksíða Hollefnis og heilsuræktar sept. 1979 - 3ja ára barn dó af fluoreitrun.Myndband - viðtal um samband krabbameins og fluors í drykkjarvatni í Bandaríkjunum.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2013 | 12:16
Skólastjórar eru ábyrgir fyrir busavígslum
Það eru skólastjórarnir en ekki óharðnaðir nemendur sem eru ábyrgir fyrir busavígslum.
Þess vegna er þetta fyrst og fremst niðurlæging skólastjóra viðkomandi skóla.
Það er ekki á valdi kennara að taka ákvörðun um að banna busavigslur, svo að valdið er hjá skólastjórunum.
Þið sem viljið banna busavigslur eigið að sakfella skólastjórana.
Ég geri það hér með.
Busar brenndir með straujárni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.8.2013 | 09:53
Busun er niðurlæging
Enn eru einhverjir sem komast upp með að niðurlægja nýja nemendur, þegar þeir ganga sín fyrstu skref í ákveðna skóla.
Sem betur fer er þó þessi barbarismi á miklu undanhaldi, eftir því sem fleiri skólastjórnendur vakna til vitundar um skyldur sínar sem uppalendur.
Í Morgunblaði dagsins er einni slíkri uppákomu fylgt eftir með stórri mynd á miðsíðu.
Ekki er gerð tilraun til að segja það sem segja þarf með þessari mynd.
Ég verð því að gera það, til að einhvers staðar komi fram rödd er mótmælir þessu framferði sem vert er.
Það er allt annar handleggur þó að nýnemar reyni að komast í gegnum þetta, þar sem það er orðið einhverskonar skylda að vera meðhöndlaður með þessu barnalega ofbeldi "eldri" nemenda.
Það er kominn tími til að hætta þessum fífla og ofbeldislátum í "æðri" skólum landsins.
Sem betur fer er ekki enn búið að færa þennan ofbeldisþátt skólanna neðar í aldursstigann.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)