Færsluflokkur: Heimspeki

Tjáningarfrelsið og okkar hlutur í viðhaldi þess

Ég er þeirrar skoðunar, að þegar einhver kemur fram opinberlega, þá geti hann sett skarð í tjáningarfrelsið, ef hann viðhefur ekki almenna kurteisi og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Í svokölluðum bloggheimum eru margir að tjá sig og gera það auðvitað mjög misjafnlega.

Í ýmsum hitamálum verður ákafinn oft mikill og þá er stutt í að eðlileg kurteisi víkji til hliðar. 

Þó er virðuleg framkoma hluti af því að viðhalda tjáningarfrelsinu. Það er augljóst að almannaritvöllur eins og facebook og aðrir netvellir, myndu fljótlega leggjast af ef ekki væru einhverjar umferðareglur og tilheyrandi ritskoðun.

Það er eins á opinberum vettvangi, eins og í heimahúsi að fólk lætur ekki út úr sér hvaða óvirðingu og skít sem hugsast getur.

Flestir hafa einhverjar girðingar og viðmið til að styðjast við.

Margir kannast við svokölluð sorpblöð, en það eru þau blöð sem ekki gæta fyllsta aðhalds um efnistök og orðbragð.

Tjáningarfrelsið fær ekki staðist nema þessar leiðbeiningar séu hafðar í huga.

Þeir sem rita greinar í blöð og tímarit eða í netheimum, þurfa að gera sér grein fyrir að ekki er hægt að fara af stað, án þess að bera fulla ábyrgð á skrifum sínum.

En einmitt vegna þess að ábyrgðin er til staðar, þá er líka hægt að misnota sér viðkvæmar og óskráðar reglur, og stefna mönnum fyrir rétt og krefjast miskabóta vegna ærumeiðinga.

Mörg dæmi eru um að slíkum stefnum hefur verið misbeitt.

Þetta vil ég biðja fólk að hafa í huga, þegar það þakkar fyrir ritfrelsið.

Eigin framkoma getur viðhaldið eða veikt þetta frelsi, sem okkur þykir svo vænt um. 


mbl.is Fjölmiðlafrelsi ógnað víða um heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er hægt að geyma okkur í demanti!

Maðurinn hefur ótrúlega tækni á valdi sínu.

Hann getur breytt leyfum mannlegrar tilveru, öskunni sem verður afgangs við brennslu og umbreytt henni í skínandi demant.

Mörgum þætti það snyrtilegra að hafa efnislegar minningar bundnar í fallegum demant, í stað þess að vera aska í skríni.

Alveg magnað að sjá þessa umbreytingu!

Sjá myndbandið hér.

demantur-.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Demantur er flott efni og tígnarlegt


Ég er ekki meinlætamaður!

Undanfarið hef ég útlistað matarvenjur mínar og get ímyndað mér að margir hrökkvi í kút, þegar undanskildar eru fjöldi matartegunda.

Tegunda sem fólk telur undirstöðu lífs á jörðunni.

Tegunda sem sé unun að borða og himneskar fyrir bragðlaukana.

"Og hvað borðar þú svo á jólunum?" er spurt í undrunartón.

Fyrst vil ég taka fram að þessi vandamál hafa öll verið leyst farsællega.

Bragðlaukarnir fá sitt í hvert einasta matarmál og fyrir næringu líkamans er að fullu séð.

Jólin eru eftir sem áður yndislegur tími. Tími samhygðar og elsku.

Það er líklega ekki nema ein matartegund sem er vond á bragðið og það er lýsi! en ég tek eina skeið á hverjum morgni til verndar heilsunni.

Dæmigerður dagur getur litið svona út:

1. Farið í kalda sturtu (upp að handarkrika). Gott fyrir taugakerfið.

2. Tekin ein skeið af lýsi.

3. Sett í blandara eftir smekk: Döðlur, gulrætur, blómkál, rauðrófur, engiferrót, spínat og kókosmjólk. Allt ósoðið og eftir keyrslu í tækinu er þessi lífselexír drukkinn!

4. Hádegismatur er korngrautur: Haframjöl og þriggjakorna mjöl sem aðeins kemur upp suða á og þá slökkt á hitanum um leið. Á diskinn er sett beint án suðu: hörfræ, sesamfræ og chiafræ sem öll hafa legið í vatni frá deginum áður og orðin eru mjúk. Rúsínur eru með í flórunni. Með þessu nota ég Hrísmjólk. Afbragðsmatur!

5. Sem eftirmiðdags"kaffi": Hollt heilhveitibrauð eða rúgkjarnabrauð með smjörva og grænmetiskæfu. Drykkur er kalt vatn. Einstaka sinnum er heitt jurtate notað, ef kalt er í veðri.

6. Kvöldmatur er á ábyrgð eiginkonunnar og gæti litið svona út:

A) Sojabollur með karrýsósu ásamt soðnum gulrótum, rófum og kartöflum. Rifið hrátt grænmeti. Ávaxtagrautur sem eftirrétt.

B) Linsubaunir soðnar og með þeim er höfð kartöflustappa. Rifið hrátt grænmeti.

C) Sojapylsur með grænmetissósu, soðnum gulrótum, rófum og kartöflustöppu . Rifið hrátt grænmeti.

D) Sojabuff með brúnni sósu, soðnum rófum og kartöflum (sem ég stappa oftast inn í sósuna, enda er það girnilegast þannig). Rifið hrátt grænmeti.

Ef eiginkonan kemur með nýja bufftegund þá þarf hún að fara í gegnum nálarauga hjá okkur. Bragðlaukarnir þurfa að samþykkja þessa nýju matartegund. Falli hún ekki í geð er henni hreinlega sleppt. Það eru til óteljandi hollar matartegundir svo það er enginn þörf á að pína sig í gegnum eitthvað sem ekki þykir gott.

Við lifum ekki meinlætalífi!

jo_769_labor_i_2010.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólaborðið árið 2010

Granolabúðingur ásamt aspas, grænmeti og brúnuðu hvítkáli, sykurhúðuðum kartöflum, góðri brúnni sósu og sýrðum rauðrófusneiðum. Drykkur er þarna Ginger Ale, en gæti líka verið Malt.

Möndlugrauturinn svokallaði: Hrísgrjónagrautur með þeyttum rjóma og út á er jarðaber úr dós með safa.

Eftirréttur gæti verið epladesert með þeyttum rjóma.


Mataræði og góð heilsa - hver vill hugsa um það?

Það er fróðlegt að fylgjast með næringarfræðingum og áhugamönnum um mataræði, þegar þeir hafa mjög öndverðar skoðanir.

Ég hef sjálfur haft sérstaklega mikinn áhuga á mataræði og heilsufari. Mig langar sannarlega til að viðhalda heilbrigði og þreki ásamt ánægju með að upplifa lífið.

Það eru svo margir sem ekkert vilja á sig leggja fyrir þessa hugsjón, sem góð heilsa er.

Margir segjast vilja vera heilbrigðir og ekki sjúkir, en þegar þarf að breyta lífsstílnum til að ná þessum áfanga, þá víkur viljinn til heilbrigðis fyrir venjunum.

Þegar ég var heildsali auglýsti ég svona: "Góð heilsa er gæfa hvers manns", sem er mín eigin útgáfa á þessari hugsjón.

Nóg um það. Hvatinn til að skrifa hér mína reynslu í kjölfar þessara skoðanaskipta "fræðinganna" er sá, að fyrir svona hálfu ári tók ég mig til og hætti neyslu á sykri.

Þetta reyndist mjög umfangsmikil aðgerð þó svo að hún beindist eingöngu að sykurinntöku. Ég hafði áður haldið mig við holla fæðu, en vissi af mínum veikleika að innbyrða sykurvörur af hvers konar tagi.

Því fylgdi neysla á vörum sem ég nú hef strikað yfir.

Um er að ræða kökur af öllu tagi og sælgæti eins og það leggur sig (nema suðusúkkulaði í hófi). Þetta virðist við fyrstu sýn vera einfalt og auðvelt, en það er öðru nær. Maður fer í boð, fermingar og afmælisveislur. Það er boðið í kaffi og kökur við öll tækifæri, við jarðarfarir, heimsóknir og nefndu það bara, því þessi siður fylgir alls staðar.

Afleiðingin af þessari breytingu fyrir mig var sú að ég fékk líkamsástand sem var mér eiginlegt í æsku.

Þannig að ég grenntist frá 74-76 kg niður í 68 kg eins og þegar ég var um 20 ára.

Það sem er merkilegast við minn "matarkúr" (sem er enginn kúr heldur bein leið) er, að ég borða eins mikið og mig langar til og matarlystin er yfir meðallagi. Ekkert aðhald í sambandi við magn matar sem ég innbyrði.  Borða þar til ég er mettur.

Þó stendur vigtin föst, ekkert rokk og ról á vigtinni!

Rétt er þó að bæta við að ég er grænmetisneytandi. Borða ekki svokallaðan pakkamat, kjöt, fisk, mjólk, ost og kaffi.

Svona er nú lífið einfalt!


mbl.is Steinaldarmataræði er ekki tískubóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég varð fyrir opinberun í Fríkirkjunni við Tjörnina

Þetta gerðist á sunnudaginn 15. apríl að ég var viðstaddur fermingu dótturdóttur minnar.

Mjög ánægjuleg stund sem maður mun minnast langa ævi.

Opinberunin sem ég ætla að minnast á gerðist við altarisgönguna. 

Við hjónin gengum upp til altaris, til heiðurs fermingarbarninu og vera þátttakendur í hennar athöfn. Þá kom í ljós að altarisbrauðið sem boðið var í stað obláta, voru venjulegir brauðbitar, eða réttara sagt brauðhnoðrar.

Ég valdi einn slíkan og deif honum í ávaxtasafann.

Þessi athöfn, eða réttara sagt hin breytta nálgun við þessa athöfn varð mér opinberun!

Ekki til að hneykslast á, heldur til að fagna nýrri hugsun.

Frá því ég man eftir mér hefur þessi athöfn verið mörgum vandmeðfarin.

Margir hafa kvartað yfir oblátunum sem vildu festast í góm og voru lengi að leysast upp.

Svo var vínið kapítuli út af fyrir sig.

Margir mega ekki nálægt víni koma, enda göróttur drykkur og vandmeðfarinn og verður allt of mörgum að falli.

Með þessu breytta sniði hjá Fríkirkjunni er vandi þessarar athafnar leystur í einu lagi og það á alveg frábæran hátt.

Ég geri ráð fyrir að presturinn séra Hjörtur Magni eigi þar veg og vanda að ákvarðanatökunni.

Má allt eins búast við mótbárum og jafnvel hneykslun kirkjugesta, þegar verið er að brjóta upp margra áratuga siðvenju.

Mér finnst þetta lýsa kjarki og hugmyndaauðgi hjá prestinum.

Andinn í þessari athöfn var einnig afskaplega notalegur og hlýr.

frik-rvk-innsyn_i_kor--.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fríkirkjan við Tjörnina


Þegar biskup verður kona kemur til ný ásýnd kirkjunnar

Nú segir almannarómur að séra Agnes Sigurðardóttir muni verða næsti biskup.

Um þetta fjallaði ég fyrir nokkru (sjá hér) og það virðist liggja í loftinu að nú verði brotið blað í kirkjusögunni, þegar biskup Íslands verður kona.

Mýkt og yfirvegun konu er vel þegið sem mótvægi við karlaveldið, þó svo að mjög margir af þeim sem setið hafa þetta embætti hafi gert það með reisn og skörungsskap og ekkert af slíku kallaði á breytingu.

Ég vil gjarnan þakka herra biskupi Íslands Karli Sigurbjörnssyni fyrir hans embættistíð.

Það var ekki alltaf létt að sitja þetta embætti og þurfa að taka á svo óvenjulegum atvikum eins og Ólafsmálið var á sínum tíma.

Ekki mun ég áfellast hann í þeim efnum. Málið var of óvenjulegt til að það geti verið dæmi um slæma málsmeðferð, almennt séð.

En alltaf erum við að læra og prestastéttin lærði mikið á stuttum tíma og regluverk og verkferlar hafa nú verið endurbættir til að geta tekið á öllum málum, venjulegum sem óvenjulegum.

En tímans þungi niður er á stöðugri ferð og nú koma nýjir straumar inn í kirkjuna, þar sem hinn mýkri hluti mannkynsins fær aukið vægi.

sera_agnes-.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Séra Agnes Sigurðardóttir

ho_769_lskirkja_-_snaefjallastro_776_nd_i_769_bakgrunni.jpg

 

 

 

 

 

 

Séra Agnes hefur þjónað Hólskirkju Bolungarvík          


Dorrit Moussaieff hefur auðgað þjóðlíf Íslands

Mér er það minnisstætt þegar Dorritt var kynnt á Bessastöðum. Þá vissi enginn hvernig persónuleiki hún væri, en henni var gefin tími og tækifæri til að láta það koma í ljós.

Það er komið í ljós og hún hefur opinberað sig sem alþýðleg og hlý manneskja sem ég leyfi mér að fullyrða að hafi komið þessari þjóð þægilega á óvart.

Í upphafi beið fólk í ofvæni eftir því að hún sýndi einhver oflæti vegna ríkidæmis og þess umhverfis sem hún hafði alist upp í. En nei, hún sýndi enginn merki þess, heldur þvert á móti. Hún kom fram með þá bestu eiginleika og fas sem Íslendingar kunna svo vel að meta. Hreinskiptni, einlægni og góðvild.

Þarna eru þeir eiginleikar samþjappaðir, sem vekja upp bestu viðbrögð þessarar þjóðar.

Ég vil alla vega lýsa þakklæti mínu fyrir að þessi kona kom inn í okkar háaðal og gerði hann manneskjulegri og alþýðlegri á þann hátt að enginn gat efast um heilindin fyrir þeirri framkomu.

Hér má lesa grein úr DV "Ísland er heimili mitt", sem ástæða er til að skoða betur, um leið og ég þakka DV fyrir mjög margar ítarlegar og áhugaverðar greinar. Kröftugt blað!


Dómsmálaráðherra á auðveldan leik framundan

Nú hefur Jóhanna tekið af öll tvímæli, varðandi afstöðu ríkisstjórnarinnar til viðveru Falun Gong manna, meðan á heimsókn háttsettra kínverskra gesta stendur.

Þetta auðveldar starf Dómsmálaráðherra. Nú fer hann ekki fram gegn vilja ríkisstjórnarinnar, þó hann geti allt eins leyft sér það, enda skörungur að störfum þar sem Ögmundur er.

Allt er þetta hið besta mál og góð tíðindi. Nú bíðum við átekta og sjáum hvernig þetta kemur út í framkvæmd.

 


mbl.is Jóhanna: Friðsöm mótmæli heimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falun Gong miklar fyrirmyndir til að líkjast!

Í lýðræðislöndum þar sem fundarfrelsi er í gildi. Þar sem leyfilegt er að mótmæla ýmsum gjörðum, sé það gert á friðsaman hátt, þá er Falun Gong félagsskapurinn einstök fyrirmynd.

Ég man hvað mér þótti mikið til þeirra koma á sínum tíma.

Þeir fluttu sinn boðskap á einstakan hátt.

Fyrir það hlutu þeir virðingu og eftirtekt, sem fór um alla heimsbyggðina.

Hvað verður svo gert í málunum ef þeir fjölmenna hingað og biðjast fyrir á almannafæri.

Ekki getur slík iðja verið tilefni til fangelsana eða sekta, eða einhvers konar takmarkana á ferðafrelsi - er það?

Nú höfum við Dómsmálaráðherra sem er þekktur skörungur. Hans er valdið og valið.

Hann er auðvitað ekkert öfundsverður af því, enda er hárfín lína á milli þess að vera góður gestgjafi fyrir virðulegt fólk frá framandi menningarheimi og svo að viðhalda sérstöðu Íslands sem lýðræðisríki.

 


Ég er jafnaðarmaður!

Hvað skyldi það svo sem þýða að lýsa yfir einhverri hugmynd sem maður aðhyllist.

Hvort skyldi ég þá velja Samfylkingu eða VG eða Framsóknarflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn eða ?? alla hina sem verða í framboði í næstu kosningum?

Ég get hreinlega ekki svarað þeim spurningum. Alveg er víst að hver maður myndi koma með sína útleggingu á því hvað það er að vera jafnaðarmaður. Ég myndi ekki bæta neinu nýju við þann lista.

Einnig gæti ég sagt: Ég aðhyllist frelsi einstaklingsins. 

Hvar stend ég þá?

Það eru svo ótrúlegar öfgar grasserandi í þjóðfélaginu að maður verður alveg orðlaus.

Til dæmi koma núna fram menn sem segja í hneykslunartón: Hún Þóra forsetaframbjóðandi er krati!

Hvað er svona slæmt við það?

Okkar ástsæli forseti Ásgeir Ásgeirsson var alþýðuflokksmaður.

Hann naut virðingar allra meðan hann sat á forsetastóli.

Menn munu þá koma með það að nú séu svo sérstakir tímar.

Já, ég tek fyllilega undir það að nú eru umrótatímar, það er augljóst.

En það má eftir sem áður taka sig á og tala af skynsemi og hófsemi.

Það skilar meiru til samfélagsins heldur en upphrópanir og níð og reiði.

Nú er tími til komin að menn taki sig saman og komi góðu lagi á samfélagsumræðuna.

Færi hana  í hófsaman búning, þannig að þjóðfélagið fari að þroskast og verða fullorðið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband