Færsluflokkur: Heimspeki
28.3.2012 | 01:25
Póker er áhættufíkn sem ber að vara við
Í Fréttablaðinu birtist grein eftir pókerspilara sem telur sig í fullum rétti til að spila póker upp á háar peningafjárhæðir.
Ég vil gjarnan að þetta fjárhættuspil verði bannað sem mannskemmandi athöfn, enda fylgja henni niðurbrjótandi siðir.
Í mínum heimabæ var maður sem eyðilagði gjörsamlega líf sitt með því að stunda spilakassana margræmdu sem eru í flestum sjoppum. Þó eru þeir taldir til skaðminni tóla, en þessi maður missti allt sitt, þó hann væri að öðru leyti hinn vænsti maður.
Enn meiri hætta fylgir pókerspili og ættu allir ærlegir menn að letja fólk til að koma nálægt slíkri eyðandi fíkn.
Í spilavítum heimsins er fólk tekið út úr hversdagsleikanum og það látið gleyma sér við skreytingar og ljósadýrð á meðan það tapar öllu sínu fé.
Einn og einn fær vinning til að halda fólki við efnið og láta það tína sér í þeirri trú að það geti unnið stórar upphæðir.
Í þessu sem öðru þar sem græðgin er leiðandi kraftur, fylgir ekkert nema óhamingja þeim sem þann veg ganga.
Í sveitinni í gamla daga lærði ég að spila Lomber. Það taldist vera peningaspil, en var það ekki í raun og veru, vegna þess að aðeins var spilað upp á smápeninga. Minn kennari talaði um 25 aura rasl, en það var svo geymt í krukku þar til næst var spilað! Enginn tapaði krónu.
Hér má lesa grein pókerspilarans.
Það er hreint ótrúlegt að lesa þessa grein og þær afsakanir og einfaldanir sem höfundurinn kemur með til réttlætingar sinni fjárhættufíkn.
Gjörið svo vel og metið það sjálf hversu heilbrigð ykkur finnst þessi iðja.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2012 | 11:21
Glórunni glatað
Í grein í Morgunblaðinu sem skrifuð er af Indriða Aðalsteinssyni, Skjaldfönn Ísafjarðardjúpi, er þessi titill notaður.
Hér er mergjað mál talað og græðginni sagt stríð á hendur. Það er alveg rúm fyrir þær aðfinnslur og ég set ekki út á það.
Hins vegar segir Aðalsteinn um ritstjóra Morgunblaðsins: "Nú hlýtur að vakna sú spurning hvers vegna ritstjórinnn þagði þunnu hljóði, verandi í kjöraðstöðu til þess að vekja alþjóðarathygli á því sem miður fór! Svarið getur varla verið neitt annað, en að á Davíðstímabilinu hafi Styrmir verið kúgaður af flokkshagsmunagæslunni sem til einföldunar kallast oft "bláa höndin".
Hér er ekki svigrúm til að gera Davíð verðug skil en til marks um ógnvænleg áhrif hans á jafnvel harðpólitíska andstæðinga er, að hann er eini stjórnmálamaðurinn sem mig hefur dreymt og það margoft. Þar fer vel á með okkur. Hann hefur gist og staðið sig vel í smalamennskum og skítverkum."
Hér líkur tilvitnun.
Það sem fær mig til að koma með athugasemd í tengslum við grein Aðalsteins er þáttur Davíðs í henni.
Fyrst kem ég að síðari tilvitnunni, þar sem Davíð kemur fyrir í draumum Aðalsteins. Fyrst að Aðalsteinn er mikill draumamaður þá finnst mér að hann ætti að vinna úr draumnum og átta sig á hvað téður draumur merkir. Ég les það út úr honum að verið sé að lýsa Davíð fyrir Aðalsteini og að þar komi Davíð fram sem heiðvirður og vinnusamur maður sem gerir sínar skyldur upp á punkt og prik.
Hið annað sem ég vil nefna er þegar Aðalsteinn segir ritstjórann hafa þegið þunnu hljóði um þá vá sem var framundan og Davíð hafði reynt að koma á framfæri við ráðandi stétt landsins, án undirtekta.
Þarna vantar Aðalstein forsendur til að átta sig á því að Davíð var það ógerningur að nefna veikleika bankanna á nafn opinberlega. Það hefði á augabragði orðið að ofsaviðbrögðum og áhlaupi á bankanna og enginn leið að forða þeim frá falli. Þá hefði verið hægt með réttu að ásaka Davíð fyrir fáfræði og hans sekt verið augljós.
Það hefur verið fært Davíð ótalmargt til sektar í gegnum tíðina af andstæðum pólitískum öflum og jafnvel peningaöflum líka, en þarna hefur hann ekkert að sér gert.
Þessu vildi ég halda til haga, enda hefur mér runnið til rifja þetta eilífa einelti á einn okkar fremsta stjórnmálaskörung. Reyndar hef ég um leið litið á þessar árásir sem staðfestingu á mikilvægi þessa manns.
Grein Aðalsteins má lesa hér
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2012 | 09:26
Verður biskupinn kona?
Nú hefur verið kosið í fyrstu umferð biskupskosninganna og útkoman er sú að í lokaumferð verða karl og kona í kjöri.
Það liggur í loftinu að tími sé komin á að kona verði biskup.
Það eru mikil tímamót að á Íslandi hefur verið brotið blað í jafnréttismálum.
Konur hafa hér orðið forseti, forsætisráðherra og til að fullkomna þrennuna kemur svo líklega kona í biskupsembættið.
Þessari þróun eigum við að gleðjast yfir. Ekki síst vegna þess að konan sem í kjöri er, er fyllilega þess verð að sitja embætti biskups og vera þar til mikils sóma.
Ég fermdist hjá föður hennar séra Sigurði Kristjánssyni og var honum mjög vel kunnugur.
Það var ekki hægt að komast hjá því að taka eftir séra Sigurði því hann var með hæstu mönnum á Ísafirði og þó víða væri leitað og sérstaklega myndarlegur í ofanálag.
Það væri mér mikil gleði ef afkomandi þessa öðlingsmanns yrði biskup Íslands.
Séra Agnes hefur starfað við Hólskirkju í Bolungarvík undanfarin ár
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2012 | 11:16
Nýjir flokkar og stefnumálin
Mikil gerjun er nú í stjórnmálaheiminum á Íslandi.
Í Silfri Egils komu þau Margrét Tryggvadóttir og Lýður læknir til að ræða um sinn flokk.
Mér fellur vel að hugmyndin sé að sýna sanngirni og samningsvilja.
Það eru þættir sem vantar tilfinnanlega hjá gömlu flokkunum.
Hins vegar er ekki hægt að lofa ákveðnum stefnumiðum og síðan að vinna markvisst gegn eigin loforðum.
Þetta hefur orðið hlutskipti VG með Steingrím Sigfússon við stjórnvölin, en hann ávann sér þann orðstír að vera stefnufastur og einlægur í sinni pólitík, þegar hann var í stjórnarandstöðu.
Þetta hefur allt farið á versta veg eins og dæmin sanna.
Það sem mig langar til að vekja máls á eru orðaskipti sem urðu í Silfri Egils um flokk Margrétar og Lýðs.
Margrét var spurð hvort að Lilja Mósesdóttir ætti ekki að ganga til liðs við þennan flokk.
Margrét taldi það einmitt vera sjálsagt mál. Hún væri velkomin til þeirra, og það yrði vel tekið á móti henni.
Það vantaði tilfinnanlega að hún nefndi aðalatrið málsins á nafn, að það bæri á milli þeirra í stefnumálum, því Lilja vildi ekki ganga í ESB, en það er einmitt stefnumál hins nýja flokks.
Það má ekki gleymast að flokkar eru stofnaðir til að koma ákveðnum málum í farveg. Nýji flokkurinn hefur fengið nafnið Dögun, samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.
Næsti flokkur sem stofnaður verður, eða hefur verið stofnaður, getur auðveldlega notast við þessa málsgrein sem Dögun hefur gert að sínum sannleika.
En endilega verið heiðarleg, þið sem stofnið nýja flokka. Haldið því fram sem þið trúið á. Dögun á að tala skýrt um hið stóra mál; inngöngu eða ekki inngöngu í ESB.
Dögun vill inngöngu Íslands í ESB
Flokkur Lilju Mósesdóttur vill ekki í ESB
Þetta eru stóru málin í núlíðandi stjórnmálum ásamt réttlæti, sanngirni og lýðræði.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2012 | 17:41
Byggja upp vöðva - er það áhugavert?
Það er virðingarvert og eðlilegt að viðhalda líkama sínum í góðu ástandi.
En hitt er umhugsunarefni hvort þessi vöðvadýrkun sem nú er við líði sé ákjósanleg og ef svo er, hvar eru þá mörkin á eðlilegum vöðvamassa og öfgum.
Að mínu mati eru öfgar allt það sem fer yfir strikið, t.d. þar sem tekin eru framandi efni til að mikla og ofgera vöðvana.
Sterar og vaxtarhormón eru hryllilegar inntökur og á ekkert skilt við að vera hraustur og heilbrigður.
Hér er vöðvafjall sem líklega þykir ekkert augnakonfekt og hefur farið yfir strikið!
Þessi krafta auglýsing vakti mig til að skrifa um þetta fyrirbæri
Fallegast og heilbrigðast þykir mér líkami fimleikamanna.
Þeir hafa svo eðlilegan líkamsvöxt, án allra öfga.
Eru með góðan styrk og eðlilega vöðvabyggingu.
Fæstir slíkra láta freistast til að skauta framhjá náttúrulegri þróun, með inntöku ónáttúrulegra efna.
15.3.2012 | 11:23
Biskupskjör - hvernig biskup viljum við
Þó svo að almenningur kjósi ekki biskup, þá hafa margir skoðanir á því hvernig biskup eigi að haga sér og hvaða kostum hann eigi að vera búin.
Mig langar til að biskupinn sé andlegur forustumaður, að orð hans komi frá æðri uppsprettu og séu eftirtektarverð.
Mig langar til að biskupinn sé andlega vakandi, þannig að hann fylgi eftir sannindum sem upphefja okkar æðsta sjálf og kveiki í okkur jákvæðan neista.
Mig langar til að biskupinn sé hafinn yfir hið daglega karp sem við heyrum svo mikið af úr stjórnmálageiranum.
Mig langar til að kona finnist sem uppfylli þessar óskir, vegna þess að það er hugsanlega komin tími á að konur komist í forustu á þessu sviði eins og öðrum.
Einnig þarf að auka hógværð og æðri vizku meðal allra kennimanna, því þeir eru sáðmenn á akrinum.
En hvað sem mínum óskum líður þá bið ég þess að okkur Íslendingum farnist vel á leið okkar til aukins þroska.
Séra Sigurbjörn Einarsson lifði þá gleði að vera vinsæll biskup, bæði í embætti og eftir að því lauk.
Séra Karl Sigurbjörnsson hefur verið í miklum metum sem biskup, þó að hann hafi fengið erfið mál í fangið.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2012 | 15:31
Guðmundur Andri Thorsson og HRUNIÐ
Í Fréttablaðinu í dag er einn af pistlum Guðmundar Andra.
Þá les ég yfirleitt alltaf, vegna þess að maðurinn er vel ritfær og oft er málefnið eftirtektarvert og krufið frá ýmsum hliðum.
En ekki í dag!
Hann er að skrifa um hrunið sem hér varð og honum tekst að nefna aldrei á nafn þá aðila sem ollu hruninu.
Hann skrifar um stjórnmálamenn þegar hann hefði átt að tala um bankarekendur.
Hver svo sem ástæðan er þá bið ég Guðmund Andra að bæta úr þessum annmarka með nýrri grein um sama málefni.
Taka þar fyrir bankarekendur sem höfðu með starfsemi sinni og aðstöðu, tækifæri til að koma eignum bankanna út úr þeirra hirslum.
Ef til vill bætir rithöfundurinn fyrir þetta stílbrot með góðri hnitmiðaðri grein á morgun og þá taki hann fyrir hina raunverulegu gerendur.
Það má helst ekki seinna vera, því nauðsynlegt er að hann upplýsi fyrir Landsdóm hvar hina seku er að finna, því ekki nefndi hann þá í grein dagsins.
10.3.2012 | 14:56
10 merkustu tilfelli fljúgandi furðuhluta eða UFO
Ég fékk í dag myndband þar sem tekið hefur verið saman 10 merkustu dæmin um fljúgandi furðuhluti.
Það er alltaf gaman að kynnast jaðar fyrirbærum eins og við getum nefnt þessi tilfelli.
Í gegnum tíðina hefur birst ótölulegur fjöldi tilkynninga frá trúverðugu fólki um allan heim.
Sammerkt með þeim öllum eru frásagnir af fljúgandi furðuhlutum, sem haga sér öðru vísi en þekkt tæki af jarðneskum uppruna.
Þessi loftför fara hraðar um en þekkt farartæki okkar jarðarbúa. Þau geta gert vélar jarðarbúa óstarfhæfar í lengri eða skemmri tíma.
Til að mynda sér skoðun á fyrirbærinu þarf að hlusta á vitni og það er hægt að gera hér í þessu myndbandi.
9.3.2012 | 11:45
Íslenskar konur hafa náð körlum í drykkjunni
Þessi fyrirsögn er á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Í því sambandi kemst ég ekki hjá því að tengja þessa frétt við þá staðreynd að nauðganir hafa aukist til muna síðustu ár.
Er það ekki málið, að aukin drykkja með tilheyrandi lausung og kæruleysi, er þess valdandi að ofbeldisverkum fjölgar.
Mjög líkleg tenging þarna á milli.
4.3.2012 | 11:40
Trúlausi maður - VAKNAÐU !
Þú sem trúir ekki og finnst að ímyndunaraflið hafi enga þýðingu. Hugsaðu upp á nýtt!
Nú ætla ég að gefa þér tækifæri til að sjá veröldina nýjum augum!
Hvað er meira virði en að geta séð tilveruna upp á nýtt og fá stórkostlegt tækifæri upp í hendurna.
Þegar fólk er orðið fast í einhverju fari, þar sem það er ófullnægt og þreytt á tilverunni, þá kemur skyndilega eitthvað upp á yfirborðið, ný von birtist út úr tóminu!
Þannig skilgreini ég það sem nú er framundan.
Á fjörur mínar kom merkileg kvikmynd sem ég tel að eigi erindi við þig, trúlausi maður.
Þessi mynd tekur á tilverunni og útskýrir myndrænt á alveg nýjan hátt.
Gefðu þér tíma til að horfa á þessa mynd og ef þú ert fróðleiksfús, þá muntu sjá tilveruna alveg nýjum jákvæðum undrandi augum.
Þú munt skynja tilveruna upp á nýtt og sjá MEÐ NÝJUM SKILNINGI - NÝRRI VITUND.
Heimspeki | Breytt 16.3.2014 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)