Færsluflokkur: Heimspeki

Sorgleg saga

Þetta tilfelli hjá Herbert finnst mér afar sorglegt. Hann vildi ekki gangast við ósanngjarnri kröfu nágrannanna og missir við það allt sitt, bæði fjárhaginn og eiginkonuna.

Eina ljósið í þessu öllu saman er hin jákvæða afstaða sem hann tekur við þessi tímamót.

Ég óska honum alls hins besta.


mbl.is „Ég er orðinn öreigi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samræður við GUÐ - snilldar ritröð!

Nú hef ég lokið við að lesa merkilegar bækur, í þrem bindum, sem heita einu nafni: "Samræður við GUÐ" og eru eftir Neale Donald Walsch.

Ólíkt mörgum bókum sem færa okkur vizku Guðs, þá er hér um að ræða rit eftir núlifandi mann.

Þessi maður varpar fram spurningum sem hafa brunnið á okkur flestum, og hann fær ítarlegri svör en flestir aðrir sem reynt hafa að spyrja.

Svörin koma til hans með ósjálfráðri skrift.

Nú segja menn kannski að hann sé sjálfur uppsprettan. Til að átta sig á því hvort svo sé þá þarf að lesa og meta svörin.

Skila þau okkur æðri sannindum en við áður bjuggum yfir?

Veita þau okkur innblástur til að meta allt upp á nýtt?

Já, ég verð að játa að þarna er bætt við nýjum sjónarhornum.

Reyndar eru þessi svör flest í miklum samhljóm við minn skilning og margra annarra á tilverunni, en það er bætt miklu við. Sjónarhornið er stækkað til mikilla muna!

Ég er afskaplega þakklátur fyrir þennan nýja vinkil og tilheyrandi lífsgleði og innblástur sem hann færir með sér og ég hvet þig lesandi góður að drífa þig til að lesa Samræðurnar.

Þær munu hreyfa við þér svo um munar, og það er allt saman á jákvæðum og uppbyggjandi nótum.

samraedur_vid_gud--.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þriðja bindi ritraðarinnar og svör við eilífðarspurningunum!


Gylliboð til að bæta heilsu

Landlæknir sem verndari læknastéttarinnar, kemur með reglulegu millibili þeim skilaboðum á framfæri, að engir aðrir en læknar megi stunda lækningastörf.

Þetta er ábending sem ég tek heilshugar undir.

En í sama mund og ég segi þetta, langar mig til að biðja landlæknir að vera á varðbergi gegn aukinni auglýsingamennsku lyfjafyrirtækja.

Boðið er upp á pillur við ýmsum kvillum, sem eru til þess fallnar að valda hugsanlega meiri vanda en lofað er að bæta. Um leið fær almenningur það á tilfinninguna að til séu pillur við öllum vanda, en það er langur vegur frá sannleikanum.

Einnig bið ég landlæknir að senda reglulega skilaboð til lækna, um að vera duglegir að skoða sjúklinga sína ítarlega, þó það taki lengri tíma heldur en að skrifa lyfseðil. Brýna það fyrir læknunum að þeirra fyrsta skylda sé að segja sjúklingnum umbúðalaust, hvað beri að gera til að ná betri heilsu.

Þannig að það er fyrsta skylda læknisins að beita algengum ráðleggingum (meiri hreyfingu, drekka nóg vatn, lifa reglusömu lífi, borða kjarngóðan mat o.s.frv.), áður en penninn er mundaður til að skrifa lyfseðil vegna vanda sjúklingsins.

Einnig mega læknar gjarnan vera opnir fyrir því að til eru fjöldi aðferða sem gera mikið gagn og hafa litlar eða engar aukaverkanir, þó svo að þær aðferðir séu ekki einkaeign læknastéttarinnar.

Óhefðbundnar lækningar koma þar fyrst upp í hugann ásamt austrænum lækningaaðferðum.

Það væri mikils virði ef læknar væru almennt opnir fyrir sem flestum möguleikum til að bæta hag sjúklinga sinna. Þannig væri væntanlega hægt að vera sem flestum stoð og stytta í endalausri leit að heilbrigði.


mbl.is Um gylliboð til að bæta heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðingarleysi við vinnu allra - og hvað skal þá gera?

Það má lesa í Morgunblaðinu fyrri hluta þessarar setningar sem ég set hér á pistilinn.

Já, ég tek undir að það er komin tími til að alþingi kveði upp úr með það sem að Geir Haarde snýr.

Það væri alþingi til betrunar og upplyftingar ef þar yrði samþykkt að falla frá ákæru á Geir Haarde.

Málið var á sínum tíma lagt upp með að minnst fjórir aðilar sætu fyrir rannsóknarnefnd og þá væri hægt að greina í sundur aðdragandann að hruninu og með því reynt að læra eitthvað af óförum þjóðarinnar.

Það er ekki hægt að slíta í sundur aðgerðir einstakra manna (athafnamanna!!) og annarra í þjóðfélaginu.

Allir leggja eitthvað í sameiginlega vitund og aðgerðir, sem svo leiðir af sér hrakfarir, vegna þess að gæði athafnanna voru ekki á hærra stigi en raun ber vitni.

Nú er lag að ljúka þessu máli á stórmannlegum nótum og sýkna Geir. 

 

Virdingarleysi vid vinnu-

 

 

 

 

 

Lesið þessa grein hér.


Menn gapa í undrun yfir undarlegri uppákomu hjá FME

Nú hefur gengið yfir þjóðina furðulegt mál, þar sem Gunnar Andersen forstjóri FME er aðalmaðurinn.

Honum skal vikið úr embætti, hvorki meira né minna!

Þessi myndarlegi maður hefur komið fyrir sjónir sem einn þeirra sem sé réttur maður á réttum stað. En í stað þess að hann festist í sessi, þá kemur stjórn FME og vill manninn burt.

Nú geta utanaðkomandi ekki séð alla fleti svona máls, en einhver lykt eða réttara sagt fnykur er í loftinu!

Í Morgunblaðinu í dag er áhugaverð grein sem ég beini athygli fólks að. Hana má lesa hér.

Þar segir Bragi Leifur Hauksson frá sinni sýn og niðurstaða hans er: "Ekki er örgrannt um að sú hugsun leiti á að stjórn Fjármálaeftirlitsins ætti að segja af sér, svo skipa megi aðra sem stendur þétt við bak forstjóra." 

Hér er ekkert lítið mál á ferðinni og ég hvet fólk til að kynna sér það betur með því að lesa grein Braga í heild sinni.


Konudagurinn og blómagjafir

Í dag komu margir fjölskyldumeðlimir í heimsókn til að taka forskot á bolludaginn.

Einhver hafði á orði að ég hefði ekki gefið konu minni blóm í tilefni konudagsins.

Þá sagði ég:

Ég hef veitt þessari konu ást mína og aðdáun og ómælda virðingu í næstum 50 ár. Öll heimsins blóm geta ekki komið í staðinn fyrir þá gjöf og ég held að hún myndi ekki vilja skipta á því atlæti og blómagjöf!

sigga_-_hei_urfelagablom_10.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 En hér er blómvöndur sem ég tileinka eiginkonunni! 


Samkynhneigðir eru ekki undirsettir almennri reglu

Fyrir nokkrum árum voru samkynhneigðir ekki ánægðir með þá umgjörð og aðbúnað sem þeim var búin hér á Íslandi.

Þeir hafa samt nú undanfarið notið skilnings og fengið réttindi fram úr því sem viðgengst víða um lönd.

Fyrir nokkrum áratugum voru samkynhneigðir í felum með sínar kenndir, en nú er blaðinu snúið algjörlega við og þeir njóta allra réttinda. Hvernig stendur á því að það nægði ekki svo að allir væru ánægðir.

Sannleikurinn er nefnilega sá að margir samkynhneigðir létu sér ekki nægja að fá að ganga í staðfesta sambúð. Þeir vildu meira.

Þeir vildu ganga í hjónaband - hvorki meira né minna. Einnig það fengu þeir framgengt.  Af hverju þurfti að nefna þetta sambúðarform hjónaband, sem slíkt fólk tekur upp. Af hverju ekki að vera sátt við að sambandið héti staðfest samvist.

Var ekki staðfest samvist eðlilegasta niðurstaðan, þegar sambúðin var ekki til að halda utan um samlíf karls og konu og þeirra afkvæmi.

Svo tel ég og margir fleiri að hefði verið eðlilegasta niðurstaðan.


Ísafjörður ægifagur - falleg ljóðabók Matthíasar Kristinssonar

Mig langar til að þakka fyrir fallega litla ljóðabók frá Ísafirði. Vestfirska forlagið gefur hana út og hefur lagt mikinn metnað í bókarkápuna. Ljóðin eru eftir Matthías Kristinsson, sem er kunnur Ísfirðingur.

Kápa bókarinnar er algjört gersemi. Hana prýðir stórkostleg mynd þar sem fegurð Ísafjarðar skartar öllu því sem til er í náttúrudýrð.

isafjordur_aegifagur-_1135149.jpg

 

 

 

 

 

 

Forsíðan og pollurinn eins og í æfintýramynd

  isafjordur_aegifagur_2-.jpg

 

 

 

 

 

 

Baksíðan sýnir fjallið Ernir ásamt Ísafjarðarkirkju

Upphafsljóðið í bókinni heitir Skutulsfjörður og er fallegur óður til Ísafjarðar, alls tólf vísur í einu kvæði. Þar kemur fram kærleikur Matthíasar til heimahaganna.

Ég tek mér það bessaleyfi að birta hér fyrstu hendinguna úr upphafsljóðinu.

Ísafjörður ægifagur,
um þig leikur dýrðardagur,
logn á Polli, logn til fjalla,
leikur sól um Gleiðarhjalla.
Prestabugt með gullnar gárur
geymir sínar freyðibárur.


Ég hvet alla velunnara Ísafjarðar og Matthíasar til að eignast þessa bók. Hún er hugljúf og vermir hjartað og fegurðarskynið.


"Geir Haarde verður sýknaður"

Reyndur bankamaður Ragnar Önundarson skrifar grein í Morgunblaðið í dag; "Engar áhyggjur, Geir Haarde verður sýknaður".

Mig langar til að benda á þessa grein, sem má lesa hér.

Flest sem Ragnar dregur fram hefur nú þegar sést frá ýmsum áttum, enda margir sem eru felmtri slegnir yfir þessum réttarhöldum yfir Geir Haarde. Þau lýsa furðulegri ásökunaráráttu og þörf til að hengja einhvern - helst þann sem ekki hefur valdið glæpnum!

Það sem er lofsvert við þessa grein umfram annað sem fram hefur komið um mál þetta, er hin góða lýsing á framtaki Geirs og hans ríkisstjórnar á hinum krítísku augnablikum þegar bankarnir hrundu.

Björgunin sem þá var framkvæmd er nú notað sem kennslugagn fyrir hið alþjóðlega fjármálakerfi.

geir_haarde_2-_1115874.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Geir Haarde verður sýknaður segir Ragnar Önundarson í grein dagsins


Ofurfæða í blandarann!

Ég fékk í jólagjöf forláta blandara, sem hefur breytt og bætt mína
möguleika með alveg nýrri vídd í matargerð. 

Eins og við vitum þá er ósoðin fæða með miklu verðmætari
næringarefnum. Suðan deyfir og eyðir fjölda nauðsynlegra
vítamína og snefilefna, en með því að fara í gegnum blandarann
er hægt að innbyrða bráðholla fæðu á alveg nýjan hátt!

 

 

Blandarinn gefur mikla möguleika til að framreiða
mjög holla fæðu sem ella myndi aldrei lenda í okkar
maga, alla vega ekki ósoðið eins og hér á sér stað.

Þær tegundir sem standa undir því að kallast ofurfæða
eru: Rauðrófur, engiferrót og spínat - allt ósoðið.
















Hér hefur verið tekið til það magn sem skera skal niður.
Innihald fyrir 3 glös:
1 glas vatn         sett í blandarann í upphafi
1 til 2 gulrætur, eftir smekk
1 biti engiferrót, eftir smekk
1 biti rauðrófa, eftir smekk
2 bitar blómkál, eftir smekk
Spínat, eftir smekk
Kókósmjólk, 1/3 úr dós
Rísmjólk, 1/3 úr glasi (smáskvetta)
Döðlur, 5 stk til að gera ljúfara á bragðið
Allt saxað niður og sett í blandarann og látið mixa. 


















Gott á bragðið og bráðhollt!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband